Íslandsmeistarar KR mæta annaðhvort Legia Varsjá frá Póllandi eða Saint Patrick's Athletic frá Írlandi í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar komist liðið áfram.
KR á mjög erfitt verkefni fyrir höndum í seinni leiknum gegn Celtic, en skosku meistararnir unnu fyrri leik liðanna, 1-0, á KR-vellinum á þriðjudaginn.
Legia Varsjá eru ríkjandi Póllandsmeistarar og Saint Patricks meistarar í Írlandi en liðin voru saman í meistarahópi eitt í drættinum.
Saint Patricks náði óvæntu jafntefli gegn Legia í fyrri leiknum í vikunni, 1-1, en ÍBV hefur tvívegis mætt írska liðinu og tapað í bæði skiptin.

