Erlent

Viðbragðsáætlun Kínverja við hugsanlegu falli Norður-Kóreu lekið

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. vísir/afp
Viðbragðsáætlun Kínverja við hugsanlegu falli Alþýðulýðveldisins Norður-Kóreu hefur verið lekið til japanskra fjölmiðla. Bendir það til þess að ráðamenn í Peking hafi litla trú á langlífi stjórnar Kims Jong-Un.

Samkvæmt áætluninni stendur meðal annars til að bæta eftirlit með landamærum Norður-Kóreu og Kína, og setja upp flóttamannabúðir í Kína komi til borgarastyrjaldar.

Þá er það tekið fram að vernda verði norðurkóreska stjórnmálaleiðtoga og yfirmenn í hernum fyrir afskiptum erlendra herafla, en samkvæmt frétt Telegraph kemur fram að þar sé talið að átt sé við Bandaríkin.

Telegraph hefur það eftir fréttastofu Kyodo News að leiðtogum Norður-Kóreu yrði haldið í sérstökum búðum þar sem hægt verði að fylgjast með þeim og einnig til þess að koma í veg fyrir að þeir taki þátt í aðgerðum sem ógnað gætu þjóðarhag Kínverja.

Verði stjórnvöld í Norður-Kóreu hrakin frá völdum af óvinaher gæti það orðið til þess að milljónir manna reyndu að flýja land, en íbúar Norður-Kóreu eru um 25 milljónir. Öruggast væri að beina flóttamönnum yfir landamærin til Kína. Kínversk stjórnvöld hyggjast skoða bakgrunn flóttamannanna og meina þeim inngöngu í landið sem þeir telja hættulega.

„Þetta undirstrikar það að lönd sem hafa hagsmuna að gæta í Norðaustur-Asíu þurfa að tala saman,“ segir Jun Okumura, prófessor í alþjóðamálum, í samtali við Telegraph. „Ég er viss um að Bandaríkin og Suður-Kórea hafa einnig gert viðbragðsáætlanir en þessi leki er nýr af nálinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×