Erlent

Janúkovítsj boðar breytingar

Bjarki Ármannsson skrifar
Viktor Janúkovítsj, annar frá vinstri, fundar með leiðtogum stjórnarandstöðunnar síðastliðinn fimmtudag.
Viktor Janúkovítsj, annar frá vinstri, fundar með leiðtogum stjórnarandstöðunnar síðastliðinn fimmtudag. vísir/AP
Viktor Janúkovítsj, forseti Úkraínu, tilkynnti í gær að hann hygðist sleppa úr haldi fjölmörgum mótmælendum og endurskipa ríkisstjórn sína í kjölfar mikilla mótmæla í landinu undanfarna mánuði. Að minnsta kosti tveir létu lífið í átökum við lögreglu í vikunni.

Mótmælin í Kænugarði, sem hófust upphaflega vegna frestunar Janúkóvítsj á fyrirhuguðum verslunarsamningi við Evrópusambandið, hafa að mestu farið friðsamlega fram undanfarna tvo mánuði. Forsetinn virðist þó hafa hellt olíu á eldinn þegar hann tilkynnti í síðustu viku ný lög sem bönnuðu með öllu mótmæli í landinu.

Átök við lögreglu færðust við það í aukana og eru dæmi um að mótmælendur hafi fleygt grjóti og eldsprengjum að sveitum stjórnvalda. Voru fjölmargir handteknir í kjölfarið.

Janúkovítsj tók til máls á fundi með trúarlegum leiðtogum í gær og ábyrgðist þar að mótmælendalögunum yrði breytt, þeir sem handteknir voru fyrir litlar sakir verði frjálsir ferða sinna og að hann muni breyta til í ríkisstjórn landsins. Stjórnarandstaðan krefst þess þó enn að hann segi af sér og að boðað verði til kosninga á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×