Rúnar Kristinsson kvaddi KR í kvöld en hann hefur verið þjálfari meistaraflokks félagsins síðan um mitt sumar 2010 eða í fjögur og hálft tímabil.
Enginn þjálfari KR hefur verið svona lengi með KR-liðið síðan að Óli B. Jónsson þjálfaði Vesturbæjarliðið í fimm tímabil í röð frá 1947-51.
Óli B. Jónsson þjálfaði KR-liðið einnig fjögur tímabil í röð frá 1958 til 1961 sem er lengsti tími þjálfara KR fyrir utan Rúnar síðustu 60 árin.
Logi Ólafsson hætti á miðju tímabili 2010 en þá var hann búinn að vera með KR liðið í tvö heil tímabil og tvö hálf tímabil að auki. Hann kom því við sögu á fjórum tímabilum í röð en þjálfaði liðið bara í þrjú ár samfellt.
Flest tímabil í röð með KR-liðið frá 1955:
4,5 Rúnar Kristinsson 2010-2014
4 Óli B. Jónsson 1958-61
3 Logi Ólafsson 2007-2010
3 Willum Þór Þórsson 2002-2004
3 Ian Ross 1988-1990
3 Gordon Lee 1985-1987
3 Hólmbert Friðjónsson 1982-84
3 Magnús Jónatansson 1978-1980

