Erlent

Pistorius bauð foreldrum Reevu „blóðpeninga“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sérstakar vitnaleiðslur standa nú yfir þar sem deilt er um hver refsing Pistorius á að vera.
Sérstakar vitnaleiðslur standa nú yfir þar sem deilt er um hver refsing Pistorius á að vera. Vísir/Getty
Oscar Pistorius bauð foreldrum Reevu Steenkamp pening í kjölfar þess að hann skaut hana til bana í febrúar á síðasta ári. Foreldrar Steenkamp neituðu að taka við peningunum sem þau sögðu vera „blóðpeninga“.

Þetta kom fram fyrir dómi í dag. Sérstakar vitnaleiðslur standa nú yfir í réttarhöldunum þar sem deilt er um hver refsing Pistorius skuli vera.

Pistorius bauð Steenkamp-hjónunum 34.000 dollara í einni greiðslu að sögn saksóknarans Gerrie Nel. Hann sagði að móðir Reevu hefði neitað að taka við peningum. „Hún vill ekki blóðpeninga,“ sagði saksóknarinn.

Það kom þó líka fram fyrir dómi í dag að Pistorius hafði greitt foreldrum Reevu um 540 dollara mánaðarlega eftir að dóttir þeirra dó. Hjónin voru blönk og svo virðist sem Reeva hafi aðstoðað þau fjárhagslega áður en hún lést.

Lögfræðingur hjónanna hafði því samband við Pistorius og bað hann um pening fyrir hönd þeirra.  Að sögn saksóknara verður það greitt að öllu til baka til spretthlauparans, en fram kemur á BBC að nokkuð óljóst virðist vera hvað eru „blóðpeningar“ og hvað ekki, í ljósi þess að Steenkamp-hjónin hafa þegið pening frá Pistorius.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×