Enski boltinn

Welbeck: Bestu framherjar heims myndu ekki skora sem kantmenn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Danny Welbeck skoraði þrennu á móti Galatasaray
Danny Welbeck skoraði þrennu á móti Galatasaray vísir/getty
Danny Welbeck, framherji Arsenal og enska landsliðsins í knattspyrnu, segir ástæðu þess að hann byrji jafnvel og raun ber vitni hjá Lundúnaliðinu vera sú að hann fær að spila sem framherji.

Welbeck þurfti mikið að spila sem kantmaður hjá Manchester United, en hann var svo seldur frá liðinu á lokadegi félagaskipta í ágúst eftir að Louis van Gaal sagði hann ekki búa yfir sömu gæðum og aðrir framherja Manchester United.

Framherjinn ungi hefur byrjað vel hjá Arsenal og skoraði sína fyrstu þrennu í Meistaradeildinni í vikunni þegar hann fór illa með liðsmenn Galatasaray frá Tyrklandi.

„Það getur enginn gagnrýnt mig fyrir hvernig ég klára færin mín því þeir hafa ekki séð mig spila oft sem framherji,“ segir Welbeck í viðtali við The Sun.

„Fólk getur sagt að ég hafi ekki skorað nógu mikið, en prófið að setja bestu framherja heims á kantinn á fjögurra manna miðju og athugið hvort þeir skori.“

„Ef maður er að skora og fær að spila reglulega í sinni stöðu eykur það sjálfstraustið. Ég myndi ekki segja að mér líði öðruvísi en áður, en áður komst ég ekki að markinu því ég var að spila á fjögurra manna miðju,“ segir Danny Welbeck.


Tengdar fréttir

Welbeck hefur komið Wenger á óvart

Danny Welbeck varð í gær sjötti Englendingurinn til þess að skora þrennu í Meistaradeildinni þegar hann skoraði 3 mörk fyrir Arsenal í 4-1 sigri á Galatasaray og knattspyrnustjórinn Arsene Wenger var sáttur með strákinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×