Íslenski boltinn

Hreinsanir á Hlíðarenda - samningum þriggja leikmanna sagt upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Ólafur Eiríksson.
Bjarni Ólafur Eiríksson. Vísir/Stefán
Valsmenn hafa sagt upp samningum við þrjá leikmenn og þar á meðal er hinn uppaldi Bjarni Ólafur Eiríksson sem hefur aldrei spilað fyrir annað íslenskt lið.

Þessar fréttir frá Hlíðarenda berast í sömu viku og bæði aðalþjálfarinn Magnús Gylfason og aðstoðarþjálfarinn Halldór Jón Sigurðsson hættu hjá liðinu.

Fótbolti.net segir frá þessu og hefur heimildir fyrir því að Valur hafi nýtt sér uppsagnarákvæði í samningum Bjarna Ólafs Eiríkssonar, Fjalars Þorgeirssonar og Halldórs Hermanns Jónssonar.

Bjarni Ólafur Eiríksson er 32 ára gamall vinstri bakvörður en hann var með samning til ársins 2015. Bjarni Ólafur spilaði alla 22 leiki Valsliðsins í Pepsi-deildinni í sumar og var fyrirliði í sjö þeirra.

Fjalar Þorgeirsson er 37 ára gamall markvörður sem var með samning til ársins 2015 en hann missti sætið sitt í síðustu sex umferðunum.

Miðjumaðurinn Halldór Hermann Jónsson kom til Vals frá Fram fyrir tímabilið og var eins og hinir með samning út næsta tímabil. Halldór Hermann spilaði 17 Pepsi-deildarleiki í sumar en var aðeins átta sinnum í byrjunarliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×