Íslenski boltinn

Lars: Þetta snýst allt um smáatriðin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. vísir/getty
Ísland hefur leik í undankeppni 2016 í fótbolta á þriðjudaginn þegar liðið mætir Tyrklandi á Laugardalsvellinum.

Strákarnir okkar æfðu í mígandi rigningu í Laugardalnum í morgun þar sem Vísir tók LarsLagerbäck, annan landsliðsþjálfara Íslands, tali.

Hvað er það sem hann og Heimir Hallgrímsson eru búnir að vera að predika fyrir strákunum um hið firnasterka tyrkneska lið sem Lars segir sjálfur vera það næstbesta í riðlinum á eftir Hollandi.

„Heimir er búinn að kynna tyrkneska liðið fyrir strákunum. Við erum búnir að fara í gegnum það hvernig þeir spila og hvernig þeir stilla upp í föstum leikatriðum,“ sagði Lagerbäck.

„Við erum með allar þær upplýsingar sem við þurfum, en þetta snýst alltaf meira um það sem við ætlum að gera.“

Áhuginn er eðlilega mikill á liðinu eftir sögulega undankeppni sem lauk með grátlegu tapi í Króatíu í fyrra. Það verður líklega fullur Laugardalsvöllur á þriðjudagskvöldið og Svíinn segir það mikilvægt að byrja vel til að halda stuðningi fólksins.

„Það er mikilvægt að byrja vel til að vera með fólkið á bakvið okkur. Það skiptir okkur miklu máli að fá stuðning íslensku þjóðarinnar og við tökum því alvarlega að spila á heimavelli,“ sagði Lagerbäck.

„Fyrir okkur sjálfa er líka bara gott að fara vel af stað. Þessi riðill er mjög erfiður, en líka mjög jafnt. Því eigum við alveg möguleika þó illa fari á þriðjudaginn.“

Síðustu undankeppni lauk í Zagreb þar sem strákunum okkar var skellt af Króötum og draumurinn um fyrsta stórmótið dó. Hvernig er að reyna að endurræsa hópinn fyrir nýja undankeppni eftir slíkt ævintýri?

„Við höfum aðeins litið til baka á síðustu undankeppni en ekki mikið. Þá helst bara til að hvetja okkur áfram. Við sáum að þetta snýst alltaf um smáatriðin, sérstaklega gegn góðu liði eins og Tyrklandi. Við þurfum að spila vel í öllum tíu leikjunum til að komast áfram og það er það sem við höfum verið að einbeita okkur að,“ sagði Lars Lagerbäck.


Tengdar fréttir

Meiðsli í tyrkneska hópnum

Miðvörðurinn Semih Kaya og miðjumaðurinn Oğuzhan Özyakup hafa dregið sig úr tyrkneska landsliðshópnum vegna meiðsla, en Tyrkland mætir Íslandi á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×