Íslenski boltinn

Aron Einar: Við ætlum okkur á stórmót

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson ásamt landsliðsþjálfaranum Lars Lagerbäck í Laugardalnum í hádeginu.
Aron Einar Gunnarsson ásamt landsliðsþjálfaranum Lars Lagerbäck í Laugardalnum í hádeginu. vísir/anton
Ísland hefur leik í undankeppni EM 2016 í knattspyrnu á Laugardalsvellinum á þriðjudagskvöldið. Ísland er í erfiðum riðli með Tékkum, Hollendingum, Lettum, Kasakstan og Tyrkjum, en fyrstu mótherjarnir eru þeir síðastnefndu.

„Við erum búnir að undirbúa okkur vel. Við erum búnir að fara vel yfir þá og varnarleikinn og sóknarleikinn hjá okkur. Við höfum haft tíma í undirbúning sem er bara flott,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag.

Ísland byrjaði síðustu undankeppni vel með sigri gegn Noregi á heimavelli, en liðið endaði svo á því að komast í umspil gegn Króatíu. Stefnan er að fara jafnvel af stað.

„Það er mikilvægt að byrja vel og eins og við gerðum í síðustu undankeppni á móti Noregi hérna heima. Við fengum alla með okkur í þetta á þeim tímapunkti. Þetta var upp á eftir það,“ sagði Aron Einar, en sorgin var mikil eftir tapið í Zagreb. Það er þó gleymt og grafið.

„Þó við höfum verið ótrúlega nálægt þessu þá erum við löngu búnir að ýta þessu á bakvið okkur og erum bara staðráðnir í að gera vel núna. Við ætlum að halda áfram að bæta okkur sem landsliðið.“

Fyrirliðinn segir það mikilvægt að ná góðum úrslitum til að halda stuðningsmönnum Íslands við efnið, en stuðningurinn við liðið undir lok síðustu undankeppni var engum líkur.

„Auðvitað er mikilvægt að fá alla með okkur í þetta. Ef úrslitin fylgja góðri frammistöðu vilja allir vera hluti af þessu. Það er það sem við viljum. Við viljum fá alla með okkur, það gaf sig vel í síðustu undankeppni. Við viljum ná úrslitum til að halda áhuga fólksins,“ sagði Aron Einar.

Þrátt fyrir erfiðan riðil er miðjumaðurinn fúlskeggjaði hvergi banginn. Markmið íslenska liðsins er alveg skýrt.

„Þetta eru virkilega sterk lið og riðilinn verður erfiður. En maður kemst ekki á EM auðveldlega, sérstaklega ekki Ísland. Við höfum sett okkur það markmið að komast á stórmót. Það er bara einfalt. Hvort sem það gerist eða ekki verður að koma í ljós en eina sem við ætlum okkur að gera er að bæta okkur og komast á stórmót,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×