Erlent

Rændu hátt í 100 drengjum í vikunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nígerísku hryðjuverkasamtökin Boko Haram námu á brott tugi drengja og ungra karlmanna í árás sinni á afskekkt þorp í norðurhluta Nígeríu í liðinni viku.  Þó nákvæmur fjöldi þeirra sé óstaðfestur er talið að þeir hafi rænt að minnsta kosti 97 piltum og að 28 hafi fallið í áhlaupinu.

Vitni segja að vígamennirnir hafi fleygt drengjum á pallbíla og keyrt á brott.

Fjórir mánuðir eru liðnir frá því að Boko Haram rændu rúmlega 200 stúlkum úr bænum Chibok og er þeirra enn saknað.

Nokkur vitni sem flúðu eftir árás í fiskiþorpið Doron Baga sögðu mennina hafa klæðst einkennisklæðnaði hermanna og lögreglumanna.  „Þeir skildu enga karlmenn eftir, aðeins ungar stúlkur og konur,“ sagði vitni í samtali við Reuters fréttastofuna.

Mennirnir eiga að hafa hrópað  „Allah Akbar“ eða „Guð er góður“  meðan þeir skutu sem þeir ættu lífið að leysa. „Þeir hrintu mönnunum okkar og drengjunum inn í bílana sína og hótuðu að skjóta hvern þann sem myndi óhlýðnast þeim. Allir voru hræddir,“ segir vitnið Halima Adamu.

Boko Haram eru nú talin stærsta ógnin sem steðjar að stjórnvöldum landsins en Nígería er stærsti olíuframleiðandi Afríku. Mannrán þeirra hafa færst í aukana það sem af er ári og frá árinu 2009 hafa þeir myrt allt að 100 manns vikulega.

Boko Haram þýðir „Vestræn menntun er synd“ á haúsatungumáli innfæddra. Markmið samtakanna er að eigin sögn að koma á og framfylgja strangari sjaríalögum í Nígeríu.


Tengdar fréttir

Hundrað stúlkum rænt í Nígeríu

Talið er að öfgasamtökin Boko Haram standi fyrir verknaðnum. Að minnsta kosti 1.500 manns hafa fallið í árásum samtakanna í þremur ríkjum í norðurhluta Nígeríu það sem af er ári.

Mannskæðar árásir í Nígeríu

Að minnsta kosti 10 manns hafa fallið í árásum vígamanna, sem talið er að séu liðsmenn öfgasamtakanna Boko Haram, á nokkur þorp í norðausturhluta Nígeríu í dag.

Goodluck Jonathan fordæmir sprengjuárásir í Jos

Forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan, fordæmdi í morgun sprengjuárásir sem gerðar voru í gærkvöldi í borginni Jos en 118 manns liggja í valnum hið minnsta. Óttast er að fleiri lík leynist í rústum húsa sem voru jöfnuð við jörðu í sprengingunum en sprengjurnar sprungu á spítala í borginni og á fjölförnum markaði.

Rændu tvöhundruð skólastúlkum í Nígeríu

Allt að 200 ungum stúlkum í skóla í Borno héraði í Nígeríu hefur verið rænt. Á heimasíðu breska ríkisútvarspins segir frá því að hópur vopnaðra manna hafi ruðst inn í skólann að næturlagi og skipað stúlkunum upp á vörubílspalla.

Boko Haram ræna fleiri stúlkum

Að minnsta kosti tuttugu ungum konum var rænt í Nígeríu um helgina og er skæruliðasveitum Boko Haram kennt um verknaðinn. Árásin var gerð aðeins í átta kílómetra fjarlægð frá þorpinu þar sem samtökin rændu um 200 ungum skólastúlkum fyrir um tveimur mánuðum síðan.

Þúsundir stúlkna eru á flótta

Maimuna Abdullahi er aðeins ein af þúsundum stúlkna á barnsaldri sem hafa gengið í gegnum hjónaskilnað í norðaustanverðri Nígeríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×