Erlent

Mistókst að ná samkomulagi um toppstöður ESB

Atli Ísleifsson skrifar
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnarinnar, og Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðsins, munu báðir láta af embætti á árinu.
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnarinnar, og Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðsins, munu báðir láta af embætti á árinu. Vísir/AFP
Leiðtogum aðildarríkja ESB tókst ekki að ná samkomulagi um hverjir skulu taka við stöður forseta leiðtogaráðsins og utanríkis- og öryggismálastjóra sambandsins á fundi sínum í Brussel í gær og í nótt.

Leiðtogarnir munu næst funda þann 30. ágúst til að útnefna arftaka þeirra Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðsins, og utanríkismálastjórans Catherine Ashton sem láta af embætti í nóvember næstkomandi.

Van Rompuy sagði það óheppilegt að ekki hafi tekist að ná lendingu, en vildi ekki gera of mikið úr málinu þegar hann ræddi við fréttamenn að loknum fundinum. Segir hann að símafundir hans með leiðtogum aðildarríkjanna síðustu daga hafi ekki skilað sér í heildarsamkomulagi um tilnefningar í stöðurnar sem allir gætu sætt sig við.

Á vef EU Observer segir að van Rompuy telji fundinn ekki hafa mistekist þar sem þarf að taka tillit til fjölda þátta þegar ákvarða skal hverjir gegni embættunum næstu árin.

Skipunartímabil forseta leiðtogaráðsins og utanríkismálastjórans er tvö og hálft ár og getur sami maður einungis gegnt embættinu í tvö tímabil að hámarki. Huga þarf að landfræðilegum þáttum, kyns og að jafnvægi sé milli stórra og lítilla aðildarríkja þegar velja skal nýja menn í embættin.

Fyrir fundinn var talið líklegt að Federica Mogherini, utanríkisráðherra Ítalíu, yrði fyrir valinu til að gegna stöðu utanríkismálastjóra, en góðar líkur voru taldar á að ákvörðun um næsta forseta leiðtogaráðsins yrði frestað fram á haust.


Tengdar fréttir

Danir fylgjast grannt með framvindu mála í Brussel

Möguleiki er á að leiðtogar aðildarríkja ESB taki ákvörðun um næsta forseta leiðtogaráðs ESB á fundi sínum sem nú stendur yfir í Brussel. Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, er talin líklegur kostur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×