Erlent

Koma saman til að velja í toppstöður ESB

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Juncker mun taka við embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB af José Manuel Barroso.
Jean-Claude Juncker mun taka við embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB af José Manuel Barroso. Visir/AFP
Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins koma saman í dag til að velja nýjan utanríkis- og öryggismálastjóra sambandsins. Sá sem fyrir valinu verður mun taka við stöðunni af Catherine Ashton sem lætur af embætti í nóvember.

Nokkrar vikur gæti tekið þar til samkomulag næst um hverjir skipa aðrar toppstöður sambandsins, svo sem einstaka framkvæmdastjórastöður og forseta leiðtogaráðsins en Herman van Rompuy mun sömuleiðis láta af embætti í nóvember.

Federica Mogherini, utanríkisráðherra Ítalíu, er sem stendur talin líklegust til að verða fyrir valinu sem utanríkis- og öryggismálastjóri ESB. Stjórnvöld í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum hafa þó lýst yfir áhyggjum vegna reynsluleysis Mogherini og telja hana hafa verið of lina í afstöðu sinni til Rússlands í Úkraínudeilunni.

Á vef Reuters egir að Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, og Kristalina Georgieva, búlgarskur framkvæmdastjóri þróunarmála hjá sambandinu, komi einnig til greina í stöðuna.

Reuters hefur eftir heimildarmanni sínum að menn ættu ekki að búast við að heildarsamkomulag náist milli leiðtoganna um hver skuli skipa stöðu utanríkismálastjóra og forseta leiðtogaráðsins. „Ég hugsa að þeir muni einungis ná samkomulagi um utanríkismálastjórann, sem er mikilvægur hluti púsluspilsins. Takmarkið er að ná endanlegu samkomulagi fyrir lok júlí.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×