Erlent

Ákvörðun um arftaka van Rompuy frestað fram á haust?

Atli Ísleifsson skrifar
Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, er talin líkleg til að taka við starfi forseta leiðtogaráðsins.
Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, er talin líkleg til að taka við starfi forseta leiðtogaráðsins. Vísir/AFP
Leiðtogar aðildarríkja ESB munu mögulega einungis taka ákvörðun um arftaka Catherine Ashton, utanríkis- og öryggismálastjóra ESB, á fundi sínum á miðvikudaginn. Hugsanlegt er að ákvörðun um arftaka Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðsins, verði ekki tekin fyrr en í haust.

EU Observer hefur eftir heimildarmanni að ef mögulegt sé að ná samstöðu um báðar stöðurnar væri rétt að klára málið. „Ef ekki, verður einungis tekin ákvörðun um utanríkis- og öryggismálastjórann.“

Van Rompuy og Ashton munu bæði láta af embættum sínum í nóvember, en samkvæmt Lissabon-sáttmálans geta menn einungis gegnt embættinu tvö tveggja og hálfs árs skipunartímabil. Evrópuþingið hefur einnig aðkomu að skipun utanríkis- og öryggismálastjórans og þarf sá sem fyrir valinu verður að hljóta samþykki þingsins.

Ástæður mögulegrar frestunar ákvörðunar um arftaka van Rompuy er ósætti meðal sósíalískra leiðtoga aðildarríkjanna. Francois Hollande Frakklandsforseti vill síður sjá Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, í starf forseta leiðtogaráðsins, en hún er nú talin líklegust til að taka við stöðunni.

Leiðtogar aðildarríkjanna þurfa að ná samkomulagi um hverjir tilnefndir verða í stöðurnar. Er ljóst að maður af hægri væng stjórnmálanna mun taka við annarri stöðunni en maður af vinstri vængnum hinni.

Thorning-Schmidt, sem er formaður danska Jafnaðarmannaflokksins, er álitin vera nægilega nálægt miðjunni á hinum pólitíska ás til að Angela Merkel Þýskalandskanslari og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, geti sætt sig við að hún gegni embættinu næstu árin.

Federica Mogherini, utanríkisráðherra Ítalíu, er nú talin líklegust til að hreppa stöðu utanríkis- og öryggismálastjórans. Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, Valdis Dombrovskis, fyrrum forsætisráðherra Lettlands og Andrus Ansip, fyrrum forsætisráðherra Eistlands, eru einnig taldir koma til greina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×