Erlent

Danir fylgjast grannt með framvindu mála í Brussel

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki er ólíklegt að Helle Thorning-Schmidt taki við embætti forseta leiðtogaráðs ESB af Herman van Rompuy síðar á árinu.
Ekki er ólíklegt að Helle Thorning-Schmidt taki við embætti forseta leiðtogaráðs ESB af Herman van Rompuy síðar á árinu. Visir/AFP
Möguleiki er á að leiðtogar aðildarríkja ESB taki ákvörðun um næsta forseta leiðtogaráðs ESB á fundi sínum sem nú stendur yfir í Brussel. Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, talin einna líklegust til að verða fyrir valinu og fylgjast Danir því grannt með gangi mála.

Gangi það eftir er ljóst að breytingar verða á ríkisstjórn Danmerkur. Á vef Politiken er rætt við reynslumikla stjórnmálaskýrendur danska ríkisútvarpsins sem segja að ef Thorning-Schmidt taki við embættinu af Herman van Rompuy vilji hún sjá Mette Frederiksen atvinnumálaráðherra sem arftaka sinn í stóli forsætisráðherra og formanns danskra jafnaðarmanna.

Kaare R. Skou, stjórnmálaskýrandi danska ríkisútvarpsins, segist eiga von á að atburðaráðin verði hröð, verði Thorning-Schmidt fengin til að taka við embætti forseta leiðtogaráðsins og sinna því næstu árin. „Hún missir allt áhrifavald sem forsætisráðherra á sama augnabliki og hún verður tilnefnd. Ég trúi því að hún myndi fljótt tilnefna Mette Frederiksen sem næsta forsætisráðherra,“ segir Skou.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×