Erlent

Þjóðarsorg í Hollandi

Atli Ísleifsson skrifar
173 af 298 farþegum MH17-vélarinnar voru Hollendingar.
173 af 298 farþegum MH17-vélarinnar voru Hollendingar. Vísir/AFP
Þjóðarsorg ríkir nú í Hollandi eftir að 173 Hollendingar hið minnsta létust þegar MH17-vél Malaysia Airlines var skotin niður í austurhluta Úkraínu um miðjan dag í gær.

Forsætisráðherra Hollands fyrirskipaði að flaggað yrði í hálfa stöng á öllum opinberum byggingum í dag vegna atviksins sem hann kallaði mestu hörmungar í sögu hollenskrar flugsögu.

Gerðar hafa verið breytingar á sjónvarpsútsendingum vegna atburðarins og umfang viðburða til að marka lok Nijmegen-göngunnar hefur verið minnkað í virðingarskyni. Þessi alþjóðlega ganga stendur yfir í fjóra daga, er rúmlega 200 kílómetra löng og er gengið um fimmtíu kílómetra daglega. Þátttakendur eru um 40 þúsund og gangan því sú stærsta sinnar tegundar í heimi. Þá hefur árlegri sumarljósmyndatöku konungsfjölskyldunnar verið aflýst.

Vél flugfélagsins var á leið frá Schiphol-flugvelli í Amsterdam til Kuala Lumpur í Malasíu en var skotin niður þegar henni var flogið yfir átakasvæði í austurhluta Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar kljást við úkraínska stjórnarherinn.

Mark Rutte forsætisráðherra sagði þetta vera „svartan dag“ í sögu Hollands. „Allir Hollendingar syrgja. Þessi fallegi sumardagur lýkur á versta mögulega hátt,“ sagði Rutte þegar hann ræddi við fréttamenn á Schiphol síðdegis í gær.

Á fréttavef Reuters segir að fleiri hundruð manna hafi skilið eftir blómvendi fyrir utan hollenska sendiráðið í Kíev, höfuðborg Úkraínu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×