Innlent

Eigandi Víðis: „Kraftaverk að við sluppum“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Víðir slapp, á ótrúlegan hátt.
Víðir slapp, á ótrúlegan hátt. Vísir/Vilhelm
„Ég stóð hérna fyrir utan og fylgdist með brunanum, ég hélt að allt myndi fara,“ segir Eiríkur Sigurðsson, eigandi matvöruverslunarinnar Víðis, um brunann í Skeifunni í gær og bætir við:

„Það er kraftaverk að við sluppum. Kraftaverk. Ef maður horfir á loftmyndir af þessu sést það betur hversu ótrúlegt það er að verslunin hafi sloppið. Slökkviliðsmennirnir unnu frábært starf hérna í gær og vindáttin hefur líka hjálpað til.“

Eiríkur bjó sig undir það versta þegar hann fylgdist með eldinum á hliðarlínunni. „Það hefði verið hrikalegt ef allt hefði brunnið. Hér eru höfuðstöðvar okkar, tölvubúnaður og mikilvæg gögn. Það var peningur í kassanum og bílar hérna fyrir utan. Það var erfitt að fylgjast með og geta ekkert gert.“

Hér má sjá reykinn í gær.Vísir/Atli Ísleifsson
Slökkviliðsmenn fengu að borða í Víði í gær. „Já, við vildum gefa þeim smá sykur, smá orku. Þeir komu hingað og fengu kók og prins. Ég er þeim svo ofboðslega þakklátur. Ég þakka þeim kærlega fyrir. Þetta eru hetjur.“

Engar teljandi skemmdir urðu á versluninni og er hún nú opin almenningi. Að sögn Eiríks fór heitavatnsrör í sundur í brunanum og ljósleiðari bráðnaði. Því var búðin án netsambands. Í hádeginu var töluvert af fólki í búðinni og virtist allt ganga snuðrulaust fyrir sig.

Búið var að opna Víði í morgun. Þessi mynd er tekin í hádeginu.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Hætt við að hús í Skeifunni hrynji

Stórhætta er á brunastað og líklegt að þök hrynji en þau eru byggð með strengjasteypu. Eins og að vera staddur í styrjöld, segir slökkviðliðsvarðsstjóri.

Mannmergðin truflaði ekki slökkvistarf

Slökkviliðið gerir ráð fyrir því í sínum áætlunum að fólk safnist saman í kringum stórbruna. Þetta segir Ólafur Ingi Grettisson, innivarðsstjóri slökkviliðsins í Skógarhlíð.

Hunsaði viðvaranir lögreglunnar

Myndband sem sýnir foreldra fylgja börnum sýnum yfir viðvörunarborða lögreglunnar hefur vakið mikið umtal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×