Innlent

Hunsaði viðvaranir lögreglunnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/VILHELM
Myndband sem sýnir fólk hunsa aðgangstakmarkanir lögreglunnar í Skeifunni hefur fengið töluverða athygli eftir að það birtist á Facebook í gærkvöldi.

Má þar meðal annars sjá foreldra leiða börn sín yfir gulan borða lögreglunnar til þess að komast nær eldinum en töluverð hætta stafaði af eldglæringunum, meðal annars vegna sprengihættu og hættulegra efna sem leystust upp í andrúmsloftið.

„Ég er í sannleika sagt gáttaður á þessari hegðun. Þarna eru heilu fjölskyldurnar að flykkjast yfir borðana. Þetta er alveg fáránlegt,“ segir Óttar Guðlaugsson myndatökumaður í samtali við Vísi. Hann bætir við að einungis örfáum mínútum áður hafi lögreglan sérstaklega óskað eftir því í útvarpinu að þessar takmarkanir yrðu virtar.

Þrátt fyrir þau skilaboð slökkviliðsins og lögreglunnar var mikill fjöldi fólks sem lagði leið sína í Skeifuna. Lögregla er ekki með tölu á hve margir fylgdust með brunanum og störfum slökkviliðsins.

„Þetta voru einhver hundruð manns. Það var alveg ofboðslega mikið af fólki,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. „Sem betur fer fengum við nú aðstoð frá Securitas og björgunarsveitunum. Það var ómetanlegt hjá þeim.“

Ólafur Ingi Grettisson, innivarðsstjóri slökkviliðsins í Skógarhlíð. segir að mannmergðin í Skeifunni hafi þó ekki truflað slökkvistarf að neinu ráði.

„Þegar fólk safnast saman í kringum bruna getur það haft áhrif, til dæmis þegar verið er að ferja tæki á staðinn. En í gær höfðu áhorfendur ekki teljandi áhrif á starfið. Það var allavega ekki stóra atriðið í þessu.“ 

Umrætt myndband má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Hætt við að hús í Skeifunni hrynji

Stórhætta er á brunastað og líklegt að þök hrynji en þau eru byggð með strengjasteypu. Eins og að vera staddur í styrjöld, segir slökkviðliðsvarðsstjóri.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.