Innlent

Rannsókn vegna hópnauðgunar á lokastigi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Rannsókn lögreglu á máli piltanna fimm sem grunaðir eru um að hafa nauðgað sextán ára stúlku í Breiðholti í byrjun maí er á lokastigi. Gert er ráð fyrir að málið verði sent saksóknara innan tíðar. RÚV greinir frá málinu.

Piltarnir eru á aldrinum 17 til 19 ára. Stúlkan kærði nauðgunina til lögreglu þriðjudaginn 6. maí. Í kjölfar kærunnar voru piltarnir handteknir og í greinargerð lögreglu kemur fram að símar þeirra og tölvur hafi verið haldlagðar.  Piltarnir voru vistaðir í einangrun á Litla-Hrauni frá 9.maí og úrskurðaði hæstiréttur þá í gæsluvarðhald til 15.maí.

Atvikið átti sér stað í samkvæmi í Breiðholti aðfaranótt sunnudags 4.maí. Húsráðendur voru ekki heima en samkvæmið var þó haldið með þeirra vitneskju. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafði þónokkur gestagangur verið um kvöldið en nauðgunin á að hafa átt sér stað þegar fáir gestir voru eftir í samkvæminu.

Atvikið var tekið upp á myndband af einum piltanna og hefur það gengið á milli fólks síðan verknaðurinn átti sér stað. Myndbandið er þó ekki aðgengilegt á internetinu, en hefur lögregla það undir höndum.

Fimmmenningarnir hafa verið nafngreindir á Facebook. Meðal þeirra sem nafngreindi þá er ung stúlka sem telur sig hafa vitneskju um málið.


Tengdar fréttir

Stúlkan lagði sjálf fram myndbandsupptökuna

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir fjórum af fimm piltum sem grunaðir eru um að hafa nauðgað sextán ára stúlku. Myndbandsupptaka er sögð styðja framburð hennar um atvikið.

Reyndu að eyða myndbandi af nauðguninni

Fimmmenningarnir sem grunaðir eru um að nauðga sextán ára stúlku ræddu saman um atvikið á Facebook og báru saman bækur sínar. Þeir eyddu myndbandi sem til var af nauðguninni og töldu þá að engin sönnunargögn væru til í málinu.

Fimm piltar handteknir vegna hópnauðgunar

Fórnarlambið er sextán ára menntaskólastúlka. Dómari í héraðsdómi hefur tekið sér frest til morguns til að ákveða um gæsluvarðhald. Ungu mennirnir eru í haldi lögreglu og verða vistaðir í fangageymslum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×