Innlent

Hópnauðgun í Breiðholti: "Þegar menn lýsa yfir sakleysi ættu þeir ekki að vera hræddir við að myndbönd komi í leitirnar"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Fjórir af mönnunum fimm sem kærðir voru fyrir hópnauðgun í Breiðholti um helgina eru undir lögaldri og Barnaverndarnefnd er komin í málið. Fimmmenningarnir voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald í dag.

Mennirnir voru leiddir fyrir dómara í gær en þeim er gert að hafa nauðgað sextán ára stúlku í heimahúsi í Breiðholti um helgina. Þeir eru allir á átjánda ári nema einn, sem verður tvítugur á árinu. Stúlkan þekkti hina kærðu áður en atvikið átti sér stað og nöfn allra mannanna hafa nú verið birt á samfélagsmiðlum, meðal annars af vinkonu stúlkunnar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru sex piltar upphaflega handteknir en einn þeirra hefur ekki stöðu grunaðs. Lögreglan fór fram á gæsluvarðhald til 15.maí og varð Héraðsdómur Reykjavíkur við þeirri kröfu í morgun. Mennirnir skulu sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu en flestir eða allir ætluðu að kæra gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar og gæti niðurstaða þar legið fyrir á mánudaginn.

Atvikið er sagt til á myndbandi og er talið að einn hinna ákærðu hafi tekið það upp og hafið dreifingu þess á netinu.

Þessi atburður náðist á myndband, segir sig ekki sjálft að það mun auðvelda sönnun í málinu?

„Jú, það hlýtur að gera það,“ segir Erlendur Þór Gunnarsson, hæstaréttarlögmaður og verjandi eins mannanna. „Ég hef reyndar ekki fengið staðfest að myndband sé til staðar en ef svo er hlýtur atburðarásin að liggja mjög skýrt fyrir.“

Erlendur segir skjólstæðing sinn ekki hafa séð myndbandið. „En þegar menn lýsa yfir sakleysi ættu þeir ekki að vera hræddir við að myndbönd komi í leitirnar,“ segir hann.

Í málum sem þessum ber að gera Barnaverndarnefnd viðvart og Erlendur staðfestir að nefndin sé meðvituð um öll málsatvik.


Tengdar fréttir

Fimm piltar handteknir vegna hópnauðgunar

Fórnarlambið er sextán ára menntaskólastúlka. Dómari í héraðsdómi hefur tekið sér frest til morguns til að ákveða um gæsluvarðhald. Ungu mennirnir eru í haldi lögreglu og verða vistaðir í fangageymslum í nótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×