Erlent

Fann móður sína á fimmtán mínútum í gegnum Facebook

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Þetta er eina myndin sem til er af þeim mæðgum saman. En þær hafa ekki hist þó þær séu í daglegum samskiptum í gegnum Facebook.
Þetta er eina myndin sem til er af þeim mæðgum saman. En þær hafa ekki hist þó þær séu í daglegum samskiptum í gegnum Facebook.
Ung bandarísk kona, Natalie Bader, fann blóðmóður sína 23 árum árum eftir að móðirin gaf hana til ættleiðingar. Bader leitaði móður sinnar í gegnum Facebook og það tók hana aðeins fimmtán mínútur að finna hana þar. 

Blóðmóðir Bader, Colette Brasseur, var 24 ára þegar hún eignaðist dótturina árið 1991. Hún var nýbúin að skrá sig í herinn þegar hún komst að því að hún var ólétt. Ástæða þess að hún hafði skráð sig í herinn var sú að hún var í fjárhagserfiðleikum. Hún óttaðist að geta ekki séð fyrir barninu og ákvað því að gefa hana til ættleiðingar.

Ættleiðingin var svokölluð opin ættleiðing og því vissi Brasseur hverjir fengu barnið. Henni leist vel á nýju foreldra dóttur sinar. „Ég hugsaði með mér að það væri eitthvað sérstakt við þetta fólk og þökk sé guði þá hafði ég rétt fyrir mér,“ sagði hún.

Hún hélt sambandi við fjölskylduna fyrstu fjögur árin en svo slitnaði upp úr. Stofan sem unnið hafði að ættleiðingunni lokaði og Brasseur vissi ekki hvernig hún ætti að komast í samband við fjölskylduna aftur.

Bader vissi því hvað blóðmóðir hennar hét. Hún fletti nafninu upp á Facebook og fann móður sína og bróður. Hún sendi þeim báðum skilaboð og bróðir hennar svaraði henni. Hann hafði ekki vitað af systur sinni.

"Ég hugsaði fyrst þegar ég sá myndina af henni. Ég kannast eitthvað við hana, ég hlýt að þekkja foreldra hennar," sagði Brasseur. 

Þetta var í desember á síðasta ári og þær Bader og Brasseur hafa verið í daglegum samskiptum síðan. Þær hafa þó ekki enn hist enda búa þær langt frá hvor annarri.

„Þegar þú gefur barn til ættleiðingar þá byrjar líf þess með nýjum foreldrum. En lífið hennar með mér hætti aldrei. Ég hugsaði sífellt um hana og í hvert sinn sem ég sá barn á hennar aldri hugsaði ég með mér hvort þetta gæti verið hún,“ segir Brasseur. „Í 23 ár fékk ég aldrei svar við því hvernig hún hefði það, en nú er það komið.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×