Erlent

Níræður kókaínsmyglari vonast til að sleppa við fangelsi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Leo Sharp er sagður einn elsti dæmdi glæpamaðurinn í sögu Michigan.
Leo Sharp er sagður einn elsti dæmdi glæpamaðurinn í sögu Michigan.
Hinn rétt tæplega níræði Leo Sharp, frá Bandaríkjunum, vonast til þess að sleppa við fangelsisvist eftir að hafa viðurkennt að hafa flutt tæp fimm hundruð kíló af kókaíni yfir Bandaríkin endilöng.

Eftir viku mun hann fá að vita hvort hann þurfi að sitja af sér dóminn. Lögmaður hans vonast til þess að Sharp sleppi vegna aldurs og slæmrar heilsu. Lögmaðurinn telur að það geti reynst samfélaginu dýrt að senda Sharp í fangelsi því hann þurfi svo mikla læknisaðstoð.

Sharp var hermaður í síðari heimsstyrjöld og fékk svokallaða bronsstjörnu í lok stríðsins, en það þykir mikill heiður. Hann sagðist hafa ákveðið að flytja eiturlyfin fyrir mexíkóska glæpaklíku, því hann vantaði pening.

Þegar hann var handtekinn árið 2011 sagði hann við lögreglumanninn: „Dreptu mig og leyfðu mér að yfirgefa þessa plánetu.“

„Það var heimskulegt að gera þetta á þessum tímapunkti,“ sagði dómarinn Nancy Edmunds sem dæmdi í máli hans í fyrra.

Ef bókstaflega væri farið eftir lögum í Michigan, þar sem Sharp var handtekinn, ætti hann yfir höfði sér að minnsta kosti fjórtán ára fangelsisvist. En saksóknarinn í málinu fer fram á fimm ára dóm vegna aldurs hans og heilsu.

Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum er hann einn elsti glæpamaðurinn sem dæmdur hefur verið í fylkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×