Erlent

Ætlaði að myrða fjölskyldu sína fyrst

Samúel Karl Ólason skrifar
Sprengjur eru sagðar hafa fundist á leikvelli skólans.
Sprengjur eru sagðar hafa fundist á leikvelli skólans. Vísir/AP
Sautján ára nemandi í framhaldsskóla í bænum Waseca í Minnesota í Bandaríkjunum, ætlaði að myrða fjölskyldu sína og kveikja eld í húsi fjölskyldunnar. Þetta ætlaði hann að gera til að draga athygli frá sprengjum sem hann ætlaði að sprengja í skóla. Þar sem hann ætlaði einnig að myrða nemendur.

Lögreglan í bænum kom í veg fyrir þetta fyrirhugaða ódæði eftir að þeim barst tilkynning frá vegfaranda sem hafði séð grunsamlegan einstakling við geymsluhúsnæði í bænum. Þegar lögreglumenn komu á vettvang fundu þeir sprengjugerðarefni og byssupúður í geymslu.

Frá þessu er sagt á vef CNN.

Í tilkynningu frá lögreglunni í gær segir að þetta sé gott dæmi um að borgarar geri hið rétta og hringi í lögregluna þegar ekki sé allt með feldu.

Táningurinn sagði lögreglu frá áætlun sinni sem gekk út á að myrða móður sína, föður og systur og kveikja í húsi þeirra. Fara í skólann og sprengja þar í hádeginu. Skjóta starfsmenn skólans og svo nemendur.

Samkvæmt dagbók táningsins, sem fannst á heimili hans, ætlaði hann að fremja ódæðið á næstu vikum. Í dagbókinni fór hann líka yfir áætlun sína, sem hann sagði lögreglu frá.

Hann mun hafa sagt lögreglumönnum að hann hefði helst vilja fremja ódæðið þann 20. apríl, sem er afmælisdagur árásarinnar á Columbine skólann. Sú dagsetning hefði þó verið um páska og skólinn því tómur. Hann sagðist hafa rannsakað aðferðir árásarmannanna í Columbine og sagðist dá þá.

Hér eru Tom Lee yfirmaður skóla og lögreglustjóri Waseca, Kris Markeson, á blaðamannafundi í gær.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×