Erlent

Yfirvöld í Malasíu hvött til að herða leitina

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Skuggi indónesískrar herflugvélar á haffletinum við leitina að flakinu.
Skuggi indónesískrar herflugvélar á haffletinum við leitina að flakinu. vísir/afp
Kínverjar hvetja yfirvöld í Malasíu til að herða leitina að farþegavél Malaysia Airlines sem ekkert hefur spurst til síðan á laugardag.

239 voru um borð, þar af meira en 150 kínverskir ríkisborgarar, og hefur aðstandendum þeirra verið sagt að búa sig undir það versta.

Á blaðamannafundi í dag staðfesti yfirmaður flugmálastjórnar Malasíu að mennirnir tveir sem greint hefur verið frá að hafi notað stolin vegabréf til að komast um borð hafi „ekki litið út fyrir að vera frá Asíu“. Vegabréfin voru frá Ítalíu og Austurríki og var stolið í Taílandi fyrir mörgum árum.

„Það er á okkar ábyrgð að krefjast þess að Malasíumenn herði leitina, hefji rannsókn eins fljótt og auðið er, og veiti Kínverjum viðeigandi upplýsingar,“ segir Qin Gang, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína.

Fjörutíu skip og 34 loftför frá níu löndum taka þátt í leitinni undan ströndum Víetnam og Malasíu. Brak og olíubrák sem sést í sjónum hefur ekki komið leitarmönnum á sporið og óvíst er hvort það tengist hvarfi vélarinnar.


Tengdar fréttir

Hugsanlegar leifar þotunnar fundnar

Yfirvöld í Víetnam hafa staðfest fund leitarflugvélar á leifum sem að gætu tengst týndri farþegaþotu Malaysia Airlines.

Óttast að 239 séu látnir

Forsætisráðherra Malasíu segir of snemmt að kalla hvarf farþegaþotunnar í dag hryðjuverk.

Týnd flugvél reyndi að snúa við

Ný gögn benda til þess að farþegaþota Malaysian Airlines sem hvarf í gærkvöldi hafi reynt að snúa við áður en hún hvarf.

Farþegavél hvarf af ratsjá

Víðtæk leit stendur yfir á Suður- Kínahafi að farþegaþotu Malaysian Airlines sem hvarf af radar í gærkvöldi. 239 manns voru um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×