Erlent

Fordæmdi árásir á hinsegin fólk í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ban Ki-Moon ásamt Thomas Bach, forseta Alþjóða Ólympíunefndarinnar í Sochi.
Ban Ki-Moon ásamt Thomas Bach, forseta Alþjóða Ólympíunefndarinnar í Sochi. Vísir/AFP Nordic
Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fordæmdi í dag árásir á hinsegin fólk í ræðu á þingi Alþjóða Ólympíunefndarinnar í Sotsjí í Rússlandi. Í ræðunni minnti hann á að þema Mannréttindadagsins í desember hefði verið „Íþróttir gegn hommahatri.“

Þetta kemur fram á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir vestur Evrópu

„Við verðum öll að láta raddir okkar heyrast og mótmæla árásum á lesbíur, homma, tvíkynhneigða, millikynfólk og transfólk. Við verðum að snúast gegn handtökum, fangelsunum og hömlum sem fela í sér mismunun sem þau sæta,“ sagði Ban í ræðu sinni.

Ban Ki-Moon hvatti einnig þjóðir heims til að leggja niður vopn á meðan Ólympíuleikarnir standa að fordæmi forn Grikkja. „Íþróttamennirnir keppa undir fánum ólíkra þjóða, en þeir fylkja sér allir undir merki jafnréttis, heiðarleika, skilnings og gagnkvæmrar virðingar“

„Ef þeir geta þetta í keppni á íþróttaleikvöngum Sochi, geta herstjórar gert slíkt hið sama á vígvöllum heimsins. Ég hvet stríðandi fylkingar, sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, til þess að virða Ólympíufriðinn og þá ekki síst í Sýrlandi, Suður-Súdan og Mið-Afríkulýðveldinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×