Erlent

Pyntaður mótmælandi eftirlýstur

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnarandstöðuleiðtoginn Vitali Klitschko ræðir hér við Dmytro Bulatov.
Stjórnarandstöðuleiðtoginn Vitali Klitschko ræðir hér við Dmytro Bulatov. Vísir/AP Images
Mótmælandinn Dmytro Bulatov sem fannst illa útleikinn í útjaðri Kænugarðs í gær og segist hafa verið haldið í átta daga og pyntaður, er kominn á lista eftirlýstra í Úkraínu. Mótmælendur standa nú vörð um sjúkrahúsið sem hann er á og hleypa lögreglunni ekki inn. Fyrr í dag ætlaði lögreglan að handtaka Bulatov en starfsmenn sjúkrahússins leyfðu þeim ekki að taka hann af sjúkrahúsinu.

Mótmælendur segja lögregluna ætla að handtaka Bulatov, en lögreglan segir aftur á móti eingöngu ætla að ræða við hann vegna rannsóknar á meintum pyntingum. Embættismaður í innanríkisráðuneyti Úkraínu sagði BBC að grunur léki á að mannránið og pyntingin væri sviðsett og liður í að auka óróleika í landinu.

Mótmælendur standa vörð um sjúkrahúsið.Vísir/AP Images
Fréttaritari BBC segir Bulatov vera einn af mörgum mótmælendum sem hafa horfið og að minnsta kosti einn þeirra hafi fundist látinn.

Einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar, Vitali Klitschko, segir að um 15 lögreglumenn hafi komið á sjúkrahúsið með dómsúrskurð og ætlað að handtaka Bulatov. Hann sagði einnig að lögreglumennirnir hefðu ekki leyft honum að sjá úrskurðinn.

Annar leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Arseniy Yatsenyuk, segir að ófarir Bulatov séu sönnun þess að dauðasveitir séu nú að störfum í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×