Enski boltinn

Walcott missir af HM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Walcott sendir stuðningsmönnum Tottenham skilaboð á leið af vellinum á laugardaginn.
Walcott sendir stuðningsmönnum Tottenham skilaboð á leið af vellinum á laugardaginn. Nordicphotos/Getty
Meiðsli Theo Walcott, kantmanns Arsenal, eru alvarlegri en talið var í fyrstu. Bendir flest til þess að hann verði frá keppni næsta hálfa árið. Sky Sports greinir frá.

Walcott varð fyrir krossbandameiðslum í hné í bikarsigri Arsenal á Tottenham á laugardaginn. Hann var borinn af velli og skiptist á skoðunum við stuðningsmenn Spurs á börunum. Honum var ekki refsað fyrir framkomu sína líkt og greint var frá fyrr í dag.

Walcott varð fyrir meiðslunum í tækklingu seint í leiknum en virtist í nokkuð góðu ástandi þegar hann yfirgaf völlinn. Í yfirlýsingu frá Arsenal í dag segir að kantmaðurinn sé hins vegar á leiðinni undir hnífinn og verði frá keppni næstu sex mánuði.

„Hann missir því af því sem eftir er af tímabilinu á Englandi og HM í Brasilíu næsta sumar.“

Í fyrstu var talið að Walcott yrði frá keppni í fjórar vikur en nú er ljóst að Arsenal verður án kantmannsins út leiktíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×