Erlent

Sex fundust látnir í fjórum bifreiðum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hertar öryggisráðstafanir í Rússlandi.
Hertar öryggisráðstafanir í Rússlandi. Nordicphotos/AFP
Rússneska lögreglan reynir að komast að því hver ber ábyrgð á dauða sex manna sem fundust látnir í fjórum bifreiðum rétt fyrir utan borgina Pjatigorsk, sem er sunnantil í Rússlandi, skammt frá Kákasushéruðunum.

Sprengiefni fundust í þremur af bifreiðunum, en einungis ein að sprengjunum sprakk og olli hún litlu tjóni.

Sprengjuárásum hefur fjölgað í Rússlandi á síðustu vikum, en skammt er þangað til Vetrar-Ólympíuleikarnir hefjast í borginni Sotsjí, sem einnig er ekki svo langt frá Kákasusfjöllum.

Íslamistar í Kákasushéruðunum hafa árum saman staðið í aðskilnaðarbaráttu og beitt hryðjuverkum óspart. Íslamistarnir hafa hótað því að fjölga mjög sprengiárásum nú í aðdraganda Ólympíuleikanna, í von um að geta komið í veg fyrir að þeir verði haldnir.

Lögreglan í Rússlandi hefur af þessum sökum hert mjög öryggisráðstafanir víða um land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×