Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Fylkir - Breiðablik 1-1 | Líflegt í Lautinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vísir/Daníel
Fylkir spilaði sinn fyrsta heimaleik í sumar í kvöld og þeir skemmtu áhorfendum ásamt Blikum í stórskemmtilegum leik. Mikið líf og eiginlega með ólíkindum að ekki hafi verið skoruð fleiri mörk.

Það var mikil hátíðarstemning í Lautinni enda voru Fylkismenn að vígja nýja og glæsilega stúku sem rúmar um 1.900 manns í sæti. Þau sæti voru vel fyllt í blíðunni í kvöld.

Leikurinn fór vægt til orða tekið rólega af stað. Það hafði fátt markvert gerst er Elís Rafn Björnsson gladdi heimamenn með því að koma þeim yfir.

Hann fékk þó boltann óvaldaður í miðjum teig eftir hornspyrnu. Hann átti skot að marki sem fór í Höskuld, varnarmann Blika, og í markið.

Blikar tóku við sér í kjölfarið og leikurinn opnaðist. Jöfnunarmark Blika kom líka upp úr engu. Þrumuskot Guðjóns Lýðs beint úr aukaspyrnu söng í netinu.

Spyrnan var frá hlið vítateigsins. Afar þröngt færi en skotið fast. Engu að síður átti Bjarni Þórður líklega að verja þetta.

Blikarnir fengu nokkur fín færi það sem eftir lifði hálfleiks og Guðjón Pétur átti að skora aftur er hann komst einn í gegn. Skot hans misheppnað og jafnt í hálfleik.

Blikarnir voru mun hættulegri í síðari hálfleik með Guðjón Pétur fremstan í flokki. Hann fékk færin til þess að skora en Bjarni Þórður bjargaði í tvígang vel frá honum.

Sóknarþungi Blikanna jókst eftir því sem leið á hálfleikinn. Þeir voru alltaf líklegri en Fylkismenn að sama skapi alltaf líklegir til þess að refsa er þeir komust upp að teig Blikanna. Bara spurning hvort liðið næði markinu.

Færin voru svo sannarlega til staðar og með hreinum ólíkindum að liðunum skildi ekki takast að skora. Á endanum urðu þau að sætta sig við sitthvort stigið.

Blikarnir voru talsvert líflegri en oft áður í sumar og geta engum nema sjálfum sér um kennt að hafa ekki unnið þennan leik. Liðið skapaði aragrúa færa, sem er jákvætt, en verður að klára færin sín betur.

Það munaði mikið um að Guðjón Lýður fann sig virkilega vel á kantinum og var duglegur að koma sér í færi og opna fyrir aðra. Magnaður leikur hjá honum en því miður fyrir Blika skilaði það þeim aðeins einu stigi.

Fylkismenn voru skynsamir í sínum leik og svo grimmir og djarfir fram á við. Með smá heppni hefði liðið hæglega getað stolið sigrinum en geta unað vel við eitt stig.

Bæði lið geta verið ánægð með hvað þau settu í leikinn. Það gáfu sig allir í verkefnið og nokkur hiti í mönnum. Bæði lið ætluðu sér þrjú stig og seldu sig dýrt. Með þessa baráttu að vopni eru bæði lið að fara að bæta við sig vel af stigum.

Guðmundur: Besti leikur liðsins undir minni stjórn

"Já, erum við komnir úr fallsæti? Ég hafði reyndar ekki hugsað þetta þannig en það er eitthvað sem við stefnum að. Við viljum ekki vera í fallsæti," sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Breiðabliks, er honum var bent á að það hefði aðeins tekið hann einn leik að koma Blikum úr fallsæti.

"Ég var gríðarlega ánægður með hvað strákarnir lögðu í leikinn. Það var mikill kraftur í liðinu. Það dró aðeins af liðinu eftir því sem leið á. Það var skiljanlegt miðað við hvað við spiluðum á háu tempói."

Þó svo það hafi dregið af Blikum gerði Guðmundur ekki skiptingu fyrr en á 82. mínútu. Hefði hann átt að bregðast fyrr við?

"Það er kannski hægt að gagnrýna það aðeins en okkur fannst vera svo stutt í markið. Menn voru mjög líklegir en eftir á að hyggja er mjög auðvelt að hugsa það þannig að auðvitað áttum við að skipta fyrr," sagði Guðmundur léttur og hló við.

Maðurinn sem breytti öllu hjá Blikum í dag var Guðjón Pétur Lýðsson en hann var allt í öllu í þeirra leik.

"Hann stóð sig eins og hetja. Skoraði frábært mark og kom sér í færi til að skora fleiri. Ég á örugglega eftir að ræða það við hann af hverju hann skoraði ekki fleiri mörk. Hann var með það í höndum sér að klára þennan leik. Hann skilaði samt frábærri vinnu og ég get ekki annað en hrósað honum fyrir leikinn og nánast öllu liðinu."

Mat blaðamanns er að þetta hafi verið besti leikur Blika í sumar. Er Guðmundur sammála því?

"Þetta var besti leikur liðsins undir minni stjórn. Alveg klárt," sagði Guðmundur kíminn.

Ásmundur: Þetta var liðið sem ég treysti best

"Þetta var hörkuleikur og það var ljóst undir lokin að bæði lið vildu meira en eitt stig. Ég er samt sáttur við hvað menn lögðu í leikinn en ég hefði viljað fá öll stigin," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis.

Fylkismenn höfðu spilað alla sex leiki sína í deildinni á útivelli og loksins spilaði liðið á heimavelli og það fyrir framan nýja stúku.

"Það er ekki hægt að segja að maður sé vanur að spila á heimavelli. Það tekur kannski smá tíma að aðlagast því og þessu nýja, flotta umhverfi hérna."

Það vakti athygli að Ásmundur skildi vera með útlendingana sína á bekknum og með tíu uppalda Fylkismenn í liðinu. Var það út af þessum tímamótum sem hann vildi vera með uppalda stráka í liðinu?

"Þetta var stundin fyrir það og líka út af því hvernig hlutirnir hafa þróast. Einn útlendingurinn okkar er meiddur og hinir tveir komu stuttu fyrir mót og ekki í fullri leikæfingu. Eftir hraðmótið var einfaldlega farið að draga af þeim. Þetta var liðið sem ég treysti best til þess að leggja sig fram í þessum leik og ég held að það hafi verið rétt ákvörðun."

Ásmundur mætti reffilegur til leiks í dag í jakkafötum með glæsilegt Fylkisbindi sem hann fékk reyndar að láni. Má búast við honum í þessum klæðnaði á næstu leikjum?

"Það hefði kannski komið til greina ef leikurinn hefði unnist. Það var tilefni til í dag og þetta var ný reynsla fyrir mig að vera svona á hliðarlínunni."

Guðjón: Hefði getað skorað fjögur mörk

Guðjón Pétur Lýðsson var yfirburðamaður á vellinum í kvöld sýndi hvað í honum býr.

"Við fengum helvíti mörg færi til þess að klára leikinn en því miður þá datt þetta ekki. Ef allt hefði dottið í dag þá hefði ég getað skorað fjögur mörk. Bjarni sá til þess að ég skoraði ekki fleiri en við hefðum átt að vinna þennan leik örugglega," sagði Guðjón svekktur.

"Ég var ánægður með liðið í dag. Sköpuðum fullt af færum og það var mikið hjarta í leik liðsins. Þetta er eitthvað til þess að byggja á."

Guðjón skoraði laglegt mark með föstu skoti beint úr aukaspyrnu. Nokkrar mínútur þar á undan var honum mjög heitt í hamsi og hann virtist taka reiðina út á boltanum í skotinu.

"Ég er yfirleitt mjög rólegur á velli en það verður að vera smá ástríða í þessu," sagði Guðjón en átti Bjarni að verja skotið hans? "Nei, þetta var ógeðslega gott skot. Aldrei spurning."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.