Enski boltinn

Chelsea endurheimti annað sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Chelsea mátti hafa fyrir stigunum þremur sem liðið vann sér inn með 2-1 sigri á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Fernando Torres var í byrjunarliði Chelsea í dag og var ekki lengi að þakka tarustið. Hann skoraði strax á 16. mínútu eftir að hafa fylgt eftir skoti Willian sem hafnaði í stöng.

Nýliðarnir í Crystal Palace jöfnuðu þó metin á 29. mínútu er Marouane Chamakh skoraði eftir sendingu Joel Ward.

Sigurmarkið kom svo sex mínútum síðar en Brasilíumaðurinn Ramires var þar að verki með laglegu skoti utan teigs eftir sendingu Eden Hazard.

Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik en heimamenn gátu þakkað markverði sínum, Petr Cech, fyrir það. Hann varði nokkrum sinnum vel og sá til þess að Chelsea kæmist aftur í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Liðið er nú með 33 stig, tveimur á eftir toppliði Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×