Íslenski boltinn

Allur ágóði af slagnum í Grafarvogi rennur til Ljóssins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigurður í nýja búningnum ásamt Halldóri Einarssyni.
Sigurður í nýja búningnum ásamt Halldóri Einarssyni. Fréttablaðið/gva
Fjölnir og Þróttur mætast í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld, en leikurinn er mikilvægur fyrir margar sakir.

Allur aðgangseyririnn rennur óskertur til söfnunar sem Sigurður Hallvarðsson stendur fyrir til styrktar Ljósinu, sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.

Þessi mikli Þróttari hefur átt í erfiðri baráttu við krabbamein undanfarin ár og vill hann gera allt í sínu valdi til að gefa til baka til Ljóssins.

Sigurður mætti á dögunum í heimsókn til Halldórs Einarssonar, eiganda Henson, og fékk þar gefins glænýja treyju. Hún var sérgerð fyrir Sigurð, en annar helmingurinn var Fjölnisgulur og hinn helmingurinn í rauðröndóttum Þróttaralitunum.

Ekkert félag stendur hjarta hans nær en Þróttur en aftur á móti leikur Aron Sigurðarson, sonur Sigurðar, með Fjölni. Þessi magnaði karakter því einnig tengdur Grafarvogsfélaginu.

Leikurinn á Fjölnisvelli hefst klukkan 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×