Erlent

Tungl fær ekki að heita Vúlkan

Leonard Nimoy, sem lék Vúlkanann Spock á fyrstu árum Star Trek, var áhugasamur um að tunglið fengi nafnið Vúlkan.
Leonard Nimoy, sem lék Vúlkanann Spock á fyrstu árum Star Trek, var áhugasamur um að tunglið fengi nafnið Vúlkan.

Alþjóðasamband stjarnfræðinga (IAU) hefur ákveðið að annað af tveimur tunglum sem nýlega fundust á sporbraut um Plútó fái ekki að bera nafnið Vúlkan þrátt fyrir að nafnið hafi hlotið flest atkvæði í atkvæðagreiðslu meðal almennings.



Efnt var til atkvæðagreiðslu þegar tunglin tvö uppgötvuðust. Vúlkan fékk langflest atkvæði, væntanlega vegna þess að nafnið tengist Star Trek sjónvarpsþáttunum og bíómyndunum þar sem Vúlkan er heimapláneta Vúlkana eins og hins fræga Spock.



IAU valdi nöfnin sem enduðu í öðru og þriðja sæti, Kerberos og Styx, en þrjú tungl Plútó höfðu áður fengið nöfn úr goðafræði.



Stjórnendur IAU nefna tvær ástæður fyrir því að nafninu Vúlkan var hafnað í fréttatilkynningu. Í fyrsta lagi segja þeir nafnið Vúlkan hafa verið notað áður, yfir meinta plánetu sem menn hafi talið sig hafa fundið milli Merkúrs og Sólarinnar. Síðar kom í ljós að plánetan var ekki til, en nafnið hefur áfram verið tengt við loftsteina sem eru á sporbraut um sólu innan við sporbraut Merkúrs.



Hin ástæðan sem nefnd hefur verið er að Vúlkan passi ekki inn í sama þema og nöfn þeirra þriggja tungla sem þekkt voru áður en fjórða og fimmta tunglið fundust. Nöfn þeirra tengjast öll eftirlífinu á einhvern hátt. Tunglin þrjú sem áður höfðu fengið nafn heita Nyx, Hydra og Charon.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×