Erlent

Þrír handteknir vegna hópnauðgunar á Indlandi

Þorgils Jónsson skrifar
Mennirnir þrír eru sakaðir um að hafa boðið konunni far í þessum vörubíl og ekið henni eftir það á afvikinn stað þar sem henni var nauðgað.
Mennirnir þrír eru sakaðir um að hafa boðið konunni far í þessum vörubíl og ekið henni eftir það á afvikinn stað þar sem henni var nauðgað.

Þrír menn voru handeknir í Indlandi í morgun vegna gruns um að hafa nauðgað bandarískri konu fyrr í vikunni. Nauðgunin átti sér stað skammt frá ferðamannabænum Manali í norðurhluta Indlands á mánudagskvöld.

Að sögn lögreglu eru mennirnir á aldrinum 22 til 24 ára. Þeir eru sakaðir um að hafa boðið konunni, sem er þrítug, far á mánudagskvöld, en keyrt hana þaðan á afvikinn stað þar sem þeir hafi nauðgað henni.

Kynferðisofbeldi er landlægt vandamál í Indlandi þar sem fjölmörg sláandi mál hafa komið upp á yfirborðið síðustu mánuði. Eftir að konu ein lést eftir hrottalega nauðgun í Nýju Delí í desember komu upp háværar kröfur um bætt öryggi kvenna.

Í gær handtók lögregla í borginni Kolkata mann sem er grunaður um að hafa nauðgað írskri konu sem vann á barnaheimili í borginni. Þá voru sex manns handteknir í mars fyrir að nauðga svissneskri ferðakonu.

Indversk stjórnvöld hafa brugðist við með því að þyngja refsingar fyrir nauðganir og færa ýmis konar athæfi, líkt og ofsóknir og mansal, undir hegningarlög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×