Erlent

Læknir sagður hafa rekið „dauðagengi“

Brjánn Jónassson skrifar
De Souza sat í gæsluvarðhaldi í rúman mánuð en var sleppt 20. mars. Lögregla vill nú fá heimild til að halda henni í gæsluvarðhaldi á ný.
De Souza sat í gæsluvarðhaldi í rúman mánuð en var sleppt 20. mars. Lögregla vill nú fá heimild til að halda henni í gæsluvarðhaldi á ný. Nordicphotos/AFP
Brasilískur læknir er grunaður um að hafa myrt að minnsta kosti 300 sjúklinga. Læknirinn og samstarfsmenn neita sök. Einn stórvirkasti morðingi sögunnar.

Brasilískur læknir er grunaður um að hafa valdið dauða að minnsta kosti 300 sjúklinga. Læknirinn er sakaður um að hafa rekið „dauðagengi“ starfsmanna sem hafi myrt sjúklinga sem ekki höfðu keypt sjúkratryggingar til að koma að sjúklingum sem höfðu slíkar tryggingar.

Virginia Helena Soares de Souza, 56 ára læknir á gjörgæsludeild spítala í borginni Curitiba, hefur þegar verið ákærð fyrir morð á sjö sjúklingum. Hún og samstarfsmenn hennar hafa frá upphafi haldið fram sakleysi sínu.

Lögregluyfirvöld ætla að rannsaka andlát 1.800 sjúklinga á spítalanum til að kanna hvort de Souza hafi átt þar hlut að máli.

Komi í ljós að hún hafi átt hlut að máli við andlát 300 sjúklinga sem nú verða rannsökuð yrði hún einn stórvirkasti fjöldamorðingi sögunnar. Breski læknirinn Harold Shipman hefur vermt efsta sætið á þeim lista, en talið er að hann hafi myrt yfir 250 sjúklinga.

De Souza og samstarfsmenn hennar eru grunaðir um að hafa gefið sjúklingum vöðvaslakandi lyf sem dró þá til dauða. Í einhverjum tilvikum leikur grunur á að slökkt hafi verið á öndunarvélum sem héldu sjúklingum á lífi.

Brasilískir fjölmiðlar hafa spilað símtal de Sousa, sem er meðal annars notað sem sönnunargagn, þar sem hún segir: „Mig klæjar í puttana að rýma gjörgæsluna. Það er því miður þannig að okkar verkefni er að vera milliliðir á stökkbrettinu yfir í næsta líf.“

Rannsókn málsins hefur staðið yfir mánuðum saman en de Souza og sjö samstarfsmenn hennar voru handteknir í febrúar. Þeim var sleppt úr haldi í lok mars en lögreglan hefur nú hug á að fara fram á gæsluvarðhald yfir de Souza að nýju á þeim grundvelli að hún hafi verið forsprakki glæpagengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×