Erlent

Neyðarlánið bjargar Kýpur fyrir horn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Starfsfólk Laiki-bankans á Kýpur hefur tekið þátt í mótmælum fyrir utan þinghúsið í Nikosíu.fréttablaðið/AP
Starfsfólk Laiki-bankans á Kýpur hefur tekið þátt í mótmælum fyrir utan þinghúsið í Nikosíu.fréttablaðið/AP
Kýpverskir ráðamenn segja samkomulagið sem tókst snemma í gærmorgun vera sársaukafullt. Þríeyki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og seðlabanka Evrópusambandsins hefur fallist á að veita Kýpverjum neyðarlán upp á tíu milljarða evra, jafnvirði um það bil 1.600 milljarða króna, gegn því að næststærsti banki landsins fari að stórum hluta í gjaldþrotameðferð.

„Þetta þýðir ekki að við séum búin að sigrast á þessu, heldur hefur okkur í raun tekist að koma í veg fyrir brottför af evrusvæðinu, sem hefði haft skelfilegar afleiðingar," höfðu fjölmiðlar eftir Michalis Sarris, fjármálaráðherra Kýpur.

Samkomulagið felur í sér að innistæður umfram 100 þúsund evrur í Laiki-bankanum muni líklega að stórum hluta tapast. Stór hluti innistæðnanna var í eigu rússneskra auðjöfra, sem hafa notfært sér Kýpur sem skattaskjól. Almenningur á Kýpur sleppur hins vegar að mestu með skrekkinn, því innistæður upp að 100 þúsund evrum verða fluttar í annan banka og njóta fullrar tryggingar.

Þetta er í fyrsta sinn sem Evrópusambandið fellst á að láta innistæðueigendur taka á sig hluta tapsins. Á Grikklandi voru það á endanum fjárfestar sem tóku á sig hluta tapsins, og þurfti að fá samþykki þeirra til. En ekki var hróflað við innistæðum í grískum bönkum, ekki frekar en á Írlandi, Spáni eða í Portúgal.

Óttast er að þetta fordæmi geti haft áhrif á auðjöfra víða um heim, sem muni hér eftir hika við að geyma fé sitt á bankareikningum í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Afleiðingarnar á Kýpur eru meðal annars þær að bankakerfi landsins skreppur verulega saman, fer úr því að vera áttföld landsframleiðsla niður í viðráðanlega stærð. Jafnframt verður Kýpur af þeim tekjum sem hafa komið frá því að vera skattaskjól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×