Erlent

Risavaxin álagsárás hægir á netumferð

Brjánn Jónasson skrifar
Tölvuþrjótar geta notað net sýktra tölva til að auka álag á netþjóna fyrirtækja eða stofnana svo mikið að þeir hrynja.
Tölvuþrjótar geta notað net sýktra tölva til að auka álag á netþjóna fyrirtækja eða stofnana svo mikið að þeir hrynja. Nordicphotos/AFP
Tækni Stórfelld netárás sem beinist gegn fyrirtæki sem berst gegn ruslpósti hefur hægt á allri netumferð. Sérfræðingar segja þetta stærstu álagsárás sem gerð hefur verið á netinu frá upphafi.

Markmið árásarinnar virðist vera að torvelda starfsemi fyrirtækisins Spamhaus, að því er fram kemur í frétt BBC. Fyrirtækið notast við svartan lista yfir vefþjóna til að stöðva sendingar á ruslpósti. Árásin hófst fyrir viku og hefur staðið yfir óreglulega síðan.

Kveikjan að árásinni virðist hafa verið sú ákvörðun stjórnenda Spamhaus að setja vefþjóna hollenska fyrirtækisins Cyberbunker á svartan lista. Cyberbunker hýsir hvaða efni sem er annað en efni sem sýnir ofbeldi gegn börnum og efni tengt hryðjuverkum.

Í kjölfarið fékk Spamhaus skilaboð frá manni sem sagðist vera talsmaður Cyberbunker þar sem hann fordæmdi Spamhaus fyrir að reyna að stýra því hvað fær að fara á netið.

Spamhaus segir árásina ekki hafa skilað tilætluðum árangri. „Við höfum staðið þetta af okkur, þeim hefur ekki tekist að taka okkur niður,“ segir Steve Linford, forstjóri Spamhaus, við BBC. „Svona öflug árás myndi taka niður nokkurn veginn alla aðra en okkur.“

Fyrirtækið rekur 80 vefþjóna víða um heim til að verjast árásum af þessu tagi. Þá hefur Google létt álagi af vefþjónum Spamhaus með því að hleypa umferðinni á eigin netþjóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×