Erlent

Einleikurinn um Rachel Corrie sýndur í Jerúsalem

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ísraelska leikkonan Sivane Kretchner í hlutverki sínu á sviði Khan-leikhússins í Jerúsalem.
Ísraelska leikkonan Sivane Kretchner í hlutverki sínu á sviði Khan-leikhússins í Jerúsalem. Mynd/AP
Einleikur um bandarísku stúlkuna Rachel Corrie er þessa dagana fluttur á hebresku í Khan-leikhúsinu í Jerúsalem.

Corrie lét lífið á Gasaströnd árið 2003 þegar hún tók þátt í mótmælum gegn niðurrifi húsa. Hún varð fyrir jarðýtu frá ísraelska hernum.

„Ég sé ekki Rachel Corrie fyrir mér sem umdeilda persónu,” hefur AP-fréttastofan eftir Sivane Kretchner, leikkonunni sem fer með hlutverk hennar. „Hún var með fallega sál og hún gat horft á eitthvað og sagt: þetta er rétt og þetta er rangt."

Leikritið um Corrie var fyrst flutt í London árið 2005, tveimur árum eftir atburðina á Gasa. Það var flutt hér á landi í Borgarleikhúsinu árið 2009.

Foreldrar hennar, Cindy og Craig, sáu flutning einleiksins hér á landi og hafa einnig séð það á frönsku og tyrknesku, auk ensku útgáfunnar. Þau fagna því að það sé nú flutt í Jerúsalem.

„Með því að sýna þetta á hebresku í Jerúsalem er saga Rachelar komin í heilan hring,” segir Cindy Corrie, móðir hennar. „Með þessu er verið að flytja það til áhorfenda sem þurfa á því að halda að heyra orð Rachelar, það sem hún hafði að segja.”

Ísraelskir stjórnmálamenn hafa hótað því að svipta leikhús, sem flytur þennan einleik, fjárstuðningi frá hinu opinbera. Borgaryfirvöld í Jerúsalem samþykktu engu að síður í síðustu viku óbreyttan stuðning við Khan-leikhúsið, þar sem einleikurinn var frumfluttur nú á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×