Erlent

Biðst afsökunar á ofbeldi

ÞJ skrifar
Tveir hafa látist og hundruð særst í mótmælaöldunni sem gengið hefur yfir Tyrkland síðustu daga.
Tveir hafa látist og hundruð særst í mótmælaöldunni sem gengið hefur yfir Tyrkland síðustu daga. Mynd/AP

Bulent Arinc, aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, hefur beðið þá mótmælendur afsökunar sem meiddust í aðgerðum lögreglu gegn friðsömum mótmælum gegn niðurrifi Gezi-lystigarðsins á föstudaginn. Hörð viðbrögð yfirvalda kveiktu mikið mótmælabál sem ekki sér enn fyrir endann á, en þúsundir hafa verið teknir höndum í óeirðum síðustu daga.

Arinc sagði á blaðamannafundi í morgun að upprunalegu mótmælin í Gezi hafi verið réttmæt og í samræmi við lög og baust til þess að hitta talsmenn mótmælenda að máli.

Hann taldi þó enga ástæðu til þess að biðja þá afsökunar sem gegnið hafi um götur, „eyðilagt opinberar eigur og reynt að hamla frelsi almennings.“

Alls hafa um 3.300 manns verið handteknir frá því að mótmælaaldan hófst í Tyrklandi fyrir helgi og fleiri er 1.300 hafa særst. Þetta segja mannréttindasamtök í landinu, en þau segja þó erfitt að henda reiður á nákvæmum upplýsingum um stöðuna.

Tveir ungir menn hafa látið lífið í átökunum, annar lést af skotsárum í nótt, en óvíst er hver var þar að verki, og hinn lést eftir að bifreið var ekið inn í hóp mótmælenda á sunnudag.

Tugþúsundir borgara hafa mótmælt stjórnarháttum Receps Erdogan forsætisráðherra síðustu fjóra daga. Hann hefur verið sakaður um alræðistilburði, en þvertekur sjálfur fyrir allt slíkt.

Áður en Erdogan hélt í opinbera heimsókn til Marokkó í gær blés hann á kröfur um að hann segði af sér og sagði rósturnar runnar undan rifjum stjórnarandstöðunnar.

Arinc hitti Abdullah Gul, forseta landsins, í morgun en Gul hefur að mestu verið jákvæður í garð mótmælanna.

Fastlega er búist við því að Gul og Erdogan, sem hefur stýrt landinu í áratug, muni takast á í forsetakosningum næsta ár.

Ekki hafa enn borist fréttir af meiriháttar róstum í Tyrklandi dag, en mikill viðbúnaður er utan við skrifstofur forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×