Erlent

Facebook "vinur" reyndist vera glæpagengi sem rændi unglingsstrák

Jóhannes Stefánsson skrifar
Móðir drengsins bað foreldra um að gæta að netnotkun barna sinna. Mynd tengist frétt ekki beint.
Móðir drengsins bað foreldra um að gæta að netnotkun barna sinna. Mynd tengist frétt ekki beint. Mynd/ Getty

13 ára Pakistönskum dreng sem var rænt eftir að hafa ætlað að hitta Facebook vin sinn í Karachi hefur verið bjargað úr höndum mannræningjanna.

Lögregluyfirvöld í Pakistan segja að Facebook „vinurinn" hafi í raun verið gengi sem þóttist vera strákur sem spilaði tölvuleiki á netinu. Glæpamennirnir plötuðu drenginn á sinn fund og rændu honum. Að því búnu heimtuðu þeir hálfa milljón dollara í lausnargjald fyrir drenginn.

Mannrán er algengur glæpur skæruliða og glæpamanna í Pakistan, en mál þar sem samskiptamiðlar koma við sögu eru fáséð.

Að sögn þarlendra fjölmiðla komst gengið í tengsl við drenginn fyrir nokkrum mánuðum í gegnum netið. Drengurinn er að sögn sonur háttsetts embættismanns hjá tollayfirvöldum.

Lögreglan mun hafa notast við símtalaskrár mannanna til að hafa uppi á drengnum og fjórir mannanna létust í björgunaraðgerðum lögreglu.

Móðir drengsins ítrekaði fyrir öðrum foreldrum að þeir yrðu að fylgjast með notkun barna sinna á samfélagsmiðlum: „Það er ósk mín til allra foreldra að leyfa börnum sínum ekki að afla vina í gegnum Facebook," og bætti við: „Í guðanna bænum gerið það ekki."

Nánar á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×