Erlent

Breskir feministar vilja að verslunarrekendur hætti að selja „karlatímarit“

Jóhannes Stefánsson skrifar
Franskir feministar mótmæla klámi. Mynd tengist efni fréttar ekki beint
Franskir feministar mótmæla klámi. Mynd tengist efni fréttar ekki beint Mynd/ AFP

Breskir feministar hafa hótað þarlendum verslunareigendum málsóknum ef þeir hætta ekki að selja tímarit sem sýna naktar eða hálfnaktar konur.

Þrýstihópar og lögfræðingar segja að birting tímaritanna eða krafa um að starfsfólk verslana þurfi að afgreiða þau feli í sér kynferðislega áreitni og mismunun. Þá segja þeir að verslanir brjóti í bága við jafnréttislög frá árinu 2010.

Samtök breskra verslunareigenda (The British Retailers Consortium) segja verslanir ekki selja neitt ólöglegt.

Jafnréttissamtökin UK Feminista og Object hafa tekið höndum saman með 11 lögfræðingum og komið af stað átakinu Burt með karlablöðin. Samtökin rituðu opið bréf sem birtist í Guardian á mánudaginn fyrir viku.

„Verslanir í stórum verslunargötum eru að brjóta gegn starfsfólki sínu og í sumum tilfellum viðskiptavinum líka með því að selja varning sem kann að brjóta gegn jafnréttislöggjöf," segir í bréfinu. „Birting karlatímarita og klámblaða í hefðbundnum verslunum getur leitt til þess að starfsfólk, og stundum viðskiptavinir, sjái klámmyndir gegn vilja sínum."

Í bréfinu frá samtökunum segir einnig af dæmum þar sem starfsmenn hafa kært vinnuveitendur sína eftir að hafa séð klámfengt efni í starfi sínu og haft betur.

Í breskri löggjöf er kynferðisleg áreitni skilgreind sem óumbeðin háttsemi í orðum eða án orða eða líkamlegt athæfi af kynferðislegum toga sem leiðir til ógnandi, niðurlægjandi eða móðgandi aðstæðna.

Formaður UK Feminista segir karlablöðin ýta undir kynjafordóma og hegðun þar sem litið er á konur sem kynferðislega hluti. Hún segir klámmyndir valda „alvöru skaða."

Ítarlega er fjallað um málið á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×