Erlent

Sprengjurnar innihéldu nagla og kúlulegur

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sprengjurnar innihéldu ýmsa smáhluti úr málmi, á borð við kúlulegur og nagla.
Sprengjurnar innihéldu ýmsa smáhluti úr málmi, á borð við kúlulegur og nagla.
Sprengjurnar sem sprungu í Boston-maraþoninu á mánudag voru búnar til úr þrýstipottum sem innihéldu kúlulegur, nagla og aðrar málmagnir.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur birt ljósmyndir af vettvangi sem sýna brot úr sprengjunum, en svo virðist sem þær hafi verið skildar eftir í bakpokum nálægt marklínunni.

Richard DesLauriers, yfirmaður rannsóknarinnar, segir að ódæðismannsins eða mannana verði leitað um allan heim, en enginn hefur lýst verknaðinum á hendur sér. Rannsókn málsins er á frumstigi og upptökur úr öryggismyndavélum eru í skoðun.

Samkvæmt skýrslu frá FBI hafa þrýstipottasprengjur verið notaðar í Afganistan, Indlandi, Nepal og Pakistan, en talið er að innlendir öfgamenn búi yfir kunnáttunni til að búa til sprengju af þessu tagi.

Alls létust þrír í sprengingunum. Krystle Campbell, 29 ára, hinn átta ára gamli Martin Richard, og kínverskur nemi sem enn hefur ekki verið nafngreindur.

Bandaríska alríkislögreglan hefur birt ljósmyndir af vettvangi. Hér má sjá brot úr annarri sprengjunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×