Erlent

Transkona íhugar málsókn eftir dvöl í karlaálmu fangelsis

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Del Valle var í karlaálmunni í þrjá daga áður en henni var sleppt gegn tryggingagjaldi.
Del Valle var í karlaálmunni í þrjá daga áður en henni var sleppt gegn tryggingagjaldi.
Fangelsisyfirvöld í Georgíufylki Bandaríkjanna sæta nú gagnrýni eftir að transkona frá New York var sett í fangaklefa með körlum.

Ashley Del Valle frá New York var handtekin í borginni Savannah fyrir að sýna brjóst sín á almannafæri.

Þegar hjúkrunarfræðingur skoðaði kynfæri Del Valle úrskurðaði hann hana „tæknilega karlkyns“ og var hún í kjölfarið sett í fangageymslur í karlaálmu fangelsisins.

Del Valle var í karlaálmunni í þrjá daga áður en henni var sleppt gegn tryggingagjaldi. Í samtali við sjónvarpsstöðina WSAV segir hún að sér hafi liðið illa og fangaverðirnir hafi hæðst að sér.

„Mér leið bara eins og það væri ekki komið fram við mig eins og manneskju,“ sagði Del Valle, en hún hefur lifað sem kona í tuttugu ár og lét breyta nafni sínu árið 2002. Hún neitar að hafa berað brjóst sín.

Mistök að vista hana í karlaálmunni

Roy Harris yfirfangavörður segir starfsmenn hafa farið eftir vinnureglum og sett Del Valle í einstaklingsklefa, en segir það hafa verið mistök að setja hana í karlaálmuna.

„Ashley er ennþá karlmaður. Ég held hann hafi farið í brjóstaígræðslu, en tæknilega séð er hann ennþá karlkyns og þar stöndum við frammi fyrir vandamáli,“ segir yfirfangavörðurinn, og bætir því við að hefð sé fyrir því að setja transfólk í einangrun.

Del Valle íhugar málsókn vegna málsins, og er talin eiga möguleika á að vinna málið í ljósi þess að hún var handtekin fyrir brot sem aðeins kona getur framið, en fangelsuð með körlum. Engin viðurlög eru við því að karlmaður beri brjóst sín í fylkinu.



WSAV: News, Weather, and Sports for Savannah, GA




Fleiri fréttir

Sjá meira


×