Erlent

Skeggjaða konan leitar að ástinni

Fjörutíu og eins árs þýsk einstæð móðir segist hafa gefist upp á því að raka skeggið af sér. Hún sé sátt við skeggvöxtinn sem hafi kennt sér mikið um lífið.

Konan, sem kom fram í breskum þætti á dögunum undir nafninu Mariam, segir að eftir að hún eignaðist sitt fyrsta og eina barn þegar hún var tuttugu og eins árs hafi skeggið byrjað að vaxa.

Í fyrstu reyndi hún að plokka skeggið en það hafi ekki gengið nægilega vel. „Ég var öll rauð og þrútin og þá fékk einnig inngróin hár. Það var alltaf eins og ég hefði slasað mig,“ segir konan. „Fólk var í sífellu að spyrja mig hvað hefði gerst fyrir mig en ég sagði þeim að þau myndi aldrei trúa því.“

Fyrir fimm árum ákvað hún að hætta að raka og plokka skeggið. Mariam býr nú í Bretlandi og heldur úti bloggsíðu þar sem hún segir frá raunum sínum.

„Einn daginn uppgötvaði ég að skeggið tilheyrir líkama mínum og það ætti greinilega að vera þarna. Í dag er ég ánægð að fá tækifæri til að lifa með skegg. Þessi reynsla hefur kennt mér mikið,“ skrifar hún á bloggsíðu sína.

„Ég hef fengið nokkrar neikvæðar athugasemdir frá fólki en flestir hvetja mig áfram,“ segir hún.

Og hún er ekki búin að gefast upp í leit að stóru ástinni í lífinu.

„Það er alltaf til fólk með allskonar blæti sem gæti þótt aðlaðandi að vera í sambandi við konu með skegg,“ segir þessi hressa kona að lokum.

Lesa má bloggsíðu hennar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×