Erlent

Allir skulu eiga byssu

Um öll Bandaríkin bregst fólk við fyrirhugaðri herðingu á skotvopnalöggjöfinni með ýmsum hætti.
Um öll Bandaríkin bregst fólk við fyrirhugaðri herðingu á skotvopnalöggjöfinni með ýmsum hætti. Nordicphotos/Getty
Bæjarráðið í bænum Nelson í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum hefur samþykkt að höfuð allra fjölskyldna í bænum skuli eiga skotvopn.

Engin viðurlög eru við því að brjóta reglurnar sem taka gildi innan tíu daga. Ekki verður heldur gengið úr skugga um að þeim verði fylgt eftir. Duane Cronic, sem á sæti í bæjarstjórn, viðurkennir að ástæða reglnanna sé að vekja athygli á réttindum fólks til að eiga skotvopn.

„Ég líki þessu við aðvörunarskilti sem fólk setur upp í görðum sínum. Sumir hafa öryggiskerfi en aðrir láta nægja að setja upp skilti," segir Cronic sem segir lögin veita bænum ákveðið öryggi.

Tillagan var samþykkt samhljóða í bæjarráðinu. Samkvæmt henni þarf höfuð fjölskyldunnar að eiga skotvopn og skotfæri til þess að verja bæjarbúa gagnvart mögulegri ógn.

Lamar Kellett, íbúi í Nelson, var einn tveggja sem hreyfði við mótmælum á áheyrnarfundi sem fram fór í miðbæ Nelson í gær. Þótti honum meðal annars fáránlegt að að bærinn væri að leggja til reglur sem mætti brjóta.

„Þýðir þetta að 80 km/klst hámarksakstur þýðir 110 km/klst, 125 km/klst eða hvað sem þú vilt? Munurinn er ekki svo mikill. Reglur eru reglur," sagði Kellett.

Um 1300 manns búa í bænum Nelson sem er um 80 kílómetra norðan við Atlanta, höfuðborg Georgíu-fylkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×