Erlent

Roger Ebert er látinn

Roger Ebert árið 2011.
Roger Ebert árið 2011. Nordicphotos/Getty
Kvikmyndagagnrýnandinn Roger Ebert er látinn sjötugur að aldri. Ebert tilkynnti í gær að hann þyrfti að draga saman seglin vegna baráttu við krabbamein en baráttunni er lokið.

Ebert, sem hefur skrifað fyrir Chicago Sun-Times í 46 ár, missti rödd sína og stóran hluta kjálkans vegna uppskurðar sem hann þurfti að gangast undir vegna krabbameins árið 2006. Hann hafði glímt við meinið allt frá árinu 2002. Hin síðustu ár gat hann hvorki borðað né drukkið.

Í bloggi sínu í gær sagðist hann hafa gagnrýnt yfir 300 kvikmyndir á síðasta ári. Alla jafna sé fjöldinn nær 200. „Nú verð ég að hægja á mér," skrifaði Ebert heitinn.

Ebert sem er sjötugur varð fyrir mjaðmabroti í desember. Mikill sársauki gerði honum erfitt fyrir við göngu en nú liggur ljóst fyrir að ástæðuna má rekja til krabbameins. „Verið er að reyna að vinna bug á meininu með geislun sem gerir mér ekki kleyft að horfa á jafnmargar myndir og mig listir," segir Ebert.

Ebert vann fyrstur kvikmyndagagnrýnenda til Pulitzer verðlauna árið 1975.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×