Erlent

Hátt í 200 manns fóru í HIV próf

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tulsa í Oklohoma.
Tulsa í Oklohoma. Mynd/ Getty.
Um 150 til 200 manns biðu í biðröð fyrir utan heilsugæslustöð í Tulsa í Oklahoma í dag eftir því að komast í HIV próf.

Greint hefur verið frá því að um 7000 manns, sem sóttu tannlæknaþjónustu hjá tilteknum tannlækni í Oklahoma, gætu hafa smitast af HIV. Tannlæknirinn, sem heitir W. Scott Harrington, er sagður hafa stundað lækningar með skítugum áhöldum og notuðum sprautum. Upp um hann komst þegar einn af sjúklingum hans greindist með HIV. Einnig leikur grunur á að fólkið sem leitaði til tannlæknisins gæti hafa smitast af lifrarbólgu B og C.

Heilsugæslan tók á móti fólkinu klukkan tíu í morgun en þá hafði þegar myndast biðröð fyrir utan þótt úrhellis rigning væri. Ein þeirra sem fór í skoðun í dag heitir Kari Childress. Hún segir í samtali við CBS fréttastofuna að hún hafi verið mjög taugaveikluð yfir fréttunum. „Ég vona bara að ég hafi ekki smitast," sagði hún. „Þú treystir á læknana þína, að þeir fylgi reglum. Og það er nú það sem er ægilegast við þetta allt saman," segir hún.

Á vef CBS má lesa meira um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×