Erlent

Sefur í búri

Nýjasta aðalhlutverk skosku leikkonunnar Tildu Swinton hefur vakið mikla athygli.

Sú skoska er nýjasta uppákoman á Nýlistasafninu í New York (e. MoMA) þar sem hún sefur allan daginn inni í glerbúri. Uppákoman ber heitið „Kannskið" (e. The Maybe).

Í glerbúrinu er aðeins að finna dýnu, kodda, gleraugu Swinton og vatnsglas. Verkið var fyrst sýnt í London 1995 en síðasti sýningardagur hennar var í Róm ári síðar. Á síðustu sýningunni í Róm tók hún sér klukkustundarhlé og hengdi upp skilti á glerbúrið: „Siesta"

Í undirbúningi sínum fyrir sýninguna fyrir tæpum tveimur áratugm sneri Swinton sólarhingnum við til þess að eiga auðveldara með að sofa að deginum til. Þá hafði hún svefnlyf við höndina ef henni gengi illa að festa svefn.

„Mér líður illa fyrir hennar hönd. Þetta tekur á," sagði hin 17 ára Ethan Fuirst við New York Post. Listgagnrýnandinn Gaby Snorr þótti ekki mikið til verksins koma.

„Kannski er það vegna þess hve vel ég er að mér í listum að mér finnst verkið ekki áhugavert. En það er kannski ágætt að hún noti nafn sitt til þess að fá fólk til þess að hugsa," sagði Snorr.

Swinton hefur meðal annars leikið í kvikmyndunum Burn After Reading, The Beach, The Chronicles of Narnia og var tilnefnd til Golden Globe verðlauna fyrir frammistöðu sína í The Deep End og We Need to Talk About Kevin.

Hún hlaut Óskarsverðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki árið 2007 fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Michael Clayton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×