Erlent

28 marka strákur sigraðist á líkindunum

Georg King var rúmlega tvisvar sinnum þyngri en meðalbarnið þegar hann kom í heiminn fyrir sex vikum.

Stærðarinnar vegna reyndist þrautinni þyngri að koma Georg í heiminn. Axlabreiddin varð til þess að erfitt var að ná honum út og töldu læknar um 10 prósent líkur á að hann myndi lifa fæðinguna af.

Í dag gengur hann í fötum ætluðum sex mánaða gömlum börnum, er átta kg að þyngd og hefur það fínt. Foreldrum hans var þó allt annað en skemmt í fæðingunni því Georg andaði ekki í fimm mínútur.

Var talið að drengurinn myndi líkast til hljóta heilaskaða af völdum súrefnisskorts en annað hefur sem betur fer komið á daginn. Hann dvaldi á barnaspítala St Michaels spítala í Bristol en fékk að fara heim að fimm viknum liðnum.

"Okkur var sagt að allt væri eðlilegt þar til hann kom út. Við fylltumst ótta þegar axlir hans festust og starfsfólkið tilkynnti okkur að hann myndi líkast til ekki lifa fæðinguna af," segir 21 árs gömul móðirin. Taldi hún að um tuttugu læknar hefðu verið viðstaddir fæðinguna.

"En nú erum við komin heim og byrjuð að venjast fjölskyldulífinu saman. Allir segja að stærðin muni jafna sig út á endanum og vöxtur hans verði eðlilegur."

Samkvæmt frétt BBC hefur aðeins einu sinni fæðst þyngra barn á Bretlandseyjum í hefðbundinni fæðingu. Umrætt barn var 30 merkur að þyngd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×