Erlent

Vara við nýrri tegund svínaflensu sem er ónæm fyrir öllum lyfjum

Vísindamenn í Ástralíu hafa varað við nýjum svínaflensuvírus sem greinst hefur í landinu en þessi vírus er ónæmur fyrir öllum þekktum flensulyfjum þar á meðal Tamiflu.

Þegar hafa greinst tilfelli af þessari flensu utan sjúkrahúsa í Ástralíu og sérfræðingar í Bretlandi segja að þeir hafi orðið varir við nokkur tilfelli af þessari flensu þar í landi.  Í Bretlandi eru heilbrigðisyfirvöld í viðbragðsstöðu ef fleiri tilfelli af þessari flensu koma í ljós.

Dr. Aeron Hurt forstöðumaður starfsstöðvar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Melbourne segir að mesta áhættan af þessari nýju flensu sé sú að vírusinn dreifist víðar og valdi faraldri á heimsvísu. Gífurlega mikilvægt sé að fylgjast grannt með því hvort þessi flensa nær að breiðast út.

Í frétt um málið á vefsíðu BBC segir að þessi nýja tegund svínaflensu hafi verið eitt helsta umræðuefnið á árlegri ráðstefnu í Ástralíu um smitsjúkdóma um helgina. Þar kom m.a. fram að fyrstu rannsóknir á þessari flensu bendi til að hún eigi mjög auðvelt með að breiðast út meðal fólks.

Síðast þegar svínaflensufaraldur herjaði á heimsvísu var árið 2009. Þá er talið að um 200.000 manns hafi látið lífið af völdum flensunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×