Stjarnan var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og komst verðskuldað yfir á síðustu mínútu hálfleiksins með marki markadrottningarinnar Ashley Bares.
Valur komst inn í leikinn í seinni hálfleik og jafnaði metinn eftir aðeins átta mínútna leik. Stjarnan fór illa með færin í fyrri hálfleik og í seinni hálfleik var komið að Val að fara illa með færin sín. Valur átti bæði skot í stöng og slána á marki Stjörnunnar áður en Inga Birna Friðjónsdóttir skoraði eftir góða stungusendingu Ásgerðar Stefaníu Baldursdóttur á 72. mínútu.
Átta mínútum síðar gerði Ásgerður svo út um leikinn af vítapunktinum en þó var enn nægur tími fyrir Val að skjóta yfir úr vítaspyrnu. Þar kristallaðist munurinn á liðunum í seinni hálfleik. Stjarnan nýtti færin sín á sama tíma og Valur fór illa með færin.
Á heildina séð var sigur Stjörnunnar sanngjarn og liðið sigurvegari í Meistarakeppni KSÍ í fyrsta sinn. Valur hafði sigrað Meistarakeppni KSÍ fimm ár í röð þar til Stjarnan rauf sigurgöngu liðsins í kvöld en Stjarnan rauf einmitt fimm ára einokun Vals á Íslandsmeistaratitlinum síðasta sumar.
Þorlákur: Þetta féll með okkur

"Það er búið að vera mikið álag á báðum liðum og mikið af leikjum. Svo er leikur á sunnudaginn þannig að það er ekki allt á fullu en þetta var opið í seinni hálfleik og bæði lið fengu færi.
"Við fengum töluvert af færum í fyrri hálfleik sem við hefðum getað nýtt betur en við nýttum færin okkar í seinni hálfleik betur. Mér fannst við missa einbeitinguna í stöðunni 1-0 og svo aftur í stöðunni 3-1. Við fáum á okkur víti á klaufalegan hátt og duttum aðeins niður. Þessi leikur var ólíkur leikjum þessara liða. Það var meira kæruleysi yfir þessu en það hefur verið.
"Ég held að áhorfendur hafi fengið skemmtun fyrir peninginn. Við fengum mörk og fullt af atvikum til að röfla yfir," sagði Þorlákur en Stjarnan vildi fá víti í stöðunni 1-1 þegar Adolf Þorberg Andersen aðstoðardómari flaggaði til marks um að brotið hafði verið á Ashley Bares í vítateig Vals en Leiknir Ágústsson dómari leiksins var ekki sömu skoðunar og dæmdi ekki víti.
Gunnar: Valsliðið var andlaust

"Við náðum að hnýta svo sem nokkra hnúta í hálfleik en við gefum þeim tvö mörk og við vinnum ekki marga leiki með því að gefa tvö mörk," sagð Gunnar sem taldi hægan leik stafa af mörgum leikjum á stuttu tímabili á undirbúningstímabilinu.
"Við fengum færi í seinni hálfleik en þegar þú gefur tvö mörk og átt skot í bæði slá og stöng auk þess að klúðra víti þá áttu ekkert skilið út úr leiknum," sagði Gunnar að lokum.
Ásgerður: Bikurum líður vel hérna

"Ég fylgi bara mínu innsægi og negldi boltanum á markið. Við vorum með yfirhöndina í fyrri hálfleik og þetta var jafnara í seinni hálfleik en heilt yfir vorum við betri," sagði Ásgerður að auki.