Enski boltinn

Bjóða félögum í Man. City klúbbnum frítt til Manchester

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Silva og Joe Hart fagna hér meistaratitlinum síðasta vor.
David Silva og Joe Hart fagna hér meistaratitlinum síðasta vor. Mynd/Nordic Photos/Getty
Breska lággjaldaflugfélagið easyJet tilkynnti nýverið að félagið myndi hefja beint flug frá Keflavík til Manchester í Bretlandi. Af því því tilefni fengu nokkrir forsprakkar stuðningsmannaklúbbs Manchester City á Íslandi fría flugmiða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Íslenski Manchester United klúbburinn er aftur á móti í samstarfi við Icelandair og þeir fengu enga fría miða frá EasyJet en erkifjendurnir í Manchester háðu magnað einvígi um Englandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.

EasyJet hefur flug til Manchester í mars og forsprakkar Man City klúbbsins stefna á að nýta frímiðana til að fara á einhvern af síðustu leikjum tímabilsins í maí.

Það eru margir möguleikar sem opnast Íslendingum með flugi easyJet til Manchesterborgar. Hún er rómuð sem verslunarborg og stutt er þaðan til borga eins og Liverpool, Bolton og Blackburn.

Aðspurður um hvað sé framundan hjá Manchester City klúbbnum á Íslandi segir Magnús Ingvason, formaður klúbbsins, í fréttatilkynningunni að fyrirhugaðar séu nokkrar hópferðir, þar á meðal ferð á síðasta leik tímabilsins.

„Það er mikil og góð stemning í klúbbnum hér heima og hún er bara að aukast. Við fórum í frábæra hópferð síðasta vor og stefnum á að fara í svipaða ferð næsta vor. Við erum líka farin að eiga í meiri samskiptum við klúbbinn úti svo að það eru bara spennandi tímar framundan hjá okkur. Sjálfur reyni ég að fara á svona 1-2 leiki á hverju tímabili", segir Magnús.

Lið Manchester City eru ríkjandi Englandsmeistarar en meðal þekktra stuðningsmanna liðsins hér á landi eru Gunnleifur Gunnleifsson landsliðsmarkvörður, Atli Eðvaldsson fyrrv. Landsliðsmaður, Heimir Guðjónsson þjálfari FH, Friðjón Friðjónsson fyrrv. formaður knattspyrnudeildar Vals og Jón Atli Benediktsson aðstoðarrektor Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×